Óvissa ríkir um framtíð hvalveiða á Íslandi. Enginn í heiminum veiðir langreyðar í atvinnuskyni annar en einn aðili, á Íslandi. Það segir sína sögu. Raunar er atvinnugreinin ekki til hér á landi nema sem vertíðarvinna, og það ekki á hverju ári. Fyrir liggja ný gögn um hverfandi efnahagsleg áhrif veiðanna á íslenskt samfélag og einnig nýjar upplýsingar um alvarlegar hættur sem stafað gætu að kvikmyndaiðnaði á Íslandi vegna veiðanna.
Mörg líta svo á að það sé enginn staður fyrir veiðar hvala á Íslandi, að þær gangi gegn velferð dýra, heyri fortíðinni til og eigi ekkert erindi á okkar tímum. Ég skil þau sem segja að það sé tímaskekkja að stunda veiðar sem fordæmdar eru á alþjóðavettvangi, skila jafnvel tapi og þjóna hverfandi markaði í fjarlægum heimshluta. Ég skil þann meirihluta þjóðarinnar sem lítur svo á að leggja eigi veiðarnar af. Ég hef heyrt þær raddir og ég skil þau sjónarmið.
Sjónarmiðin hér að ofan falla utan verkefnisins sem ég stend frammi fyrir í dag, sem varðar framkvæmd veiða á grundvelli leyfis sem forveri minn í embætti veitti út þetta ár. Í dag tók ég ákvörðun um að setja nýja reglugerð sem inniheldur skilyrði sem eru forsendur áframhaldandi veiða á langreyðum. Frestun veiðitímabilsins er runnin út og ekki eru skilyrði til frekari frestunar. Þessi ákvörðun er m.a. byggð á niðurstöðu starfshóps matvælaráðuneytisins og er tekin innan þess lagaramma sem mér ber að starfa. Mitt hlutverk er að taka ákvarðanir sem byggja á lögmætum grunni, þeim grunni sem Alþingi hefur lagt.
Ráðuneyti mitt hefur lagt fram minnisblað sem byggt er á skýrslu starfshópsins ráðuneytisins ásamt öðrum gögnum í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Ströng skilyrði og hert eftirlit við framkvæmd veiðanna verða nú birt í reglugerð í stjórnartíðindum. Reglugerðin fjallar meðal annars um skilyrði sem varða þjálfun, veiðibúnað og veiðiaðferðir. Sömuleiðis verður safnað frekari upplýsingum um alla framkvæmd veiðanna til að varpa ljósi á þau atriði og breytingar sem óvissa er um að skili árangri. Allar þessar ráðstafanir, eins og mínar fyrri ákvarðanir í þessu máli, byggja á faglegum sjónarmiðum, hvíla á lögmætum grunni og eru í anda góðrar stjórnsýslu. Leyfishafi fær nú tækifæri til að sýna í verki að þær úrbætur sem hann hefur lagt til skili árangri. Tilefnið er ærið eins og niðurstöður eftirlits Matvælastofnunar sýndi fram á.
Tilgangur og markmið Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur frá upphafi verið að setja framfaramál á dagskrá í samfélaginu. Vegna þeirra reglugerðar sem ég setti á síðasta ári eru velferðarmál við hvalveiðar á dagskrá. Með því að færa þessa starfsemi í dagsljósið hefur sprottið upp umræða um hvort hún sé í samræmi við þau gildi sem við sem samfélag viðhöfum. Sjálf tel ég allar líkur standa til þess að samfélagið muni taka nýja ákvörðun. Enda eru aðstæður á Íslandi, gildismat okkar og hagsmunir aðrir nú en fyrir áttatíu árum, þegar lög um hvalveiðar voru sett. Málið þarf að ræða sem víðast, á Alþingi og um samfélagið allt. Álitaefnin sem hér eru uppi eru ekki á förum og þau þarf að leiða til lykta. Hin samfélagslega umræða um framtíð þessara veiða heldur áfram.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.