Search
Close this search box.

Framtíð í mjólkurframleiðslu

Deildu 

Stuttu fyrir jól voru gerðar lagabreytingar sem snéru að samningi stjórnvalda og kúabænda samþykktar á Alþingi. Því munu viðskipti með greiðslumark hefjast á nýjan leik á árinu. Er það orðið tímabært eftir mikla óvissu um hvernig stuðningi við nautgriparækt yrði háttað til frambúðar sem olli því að nær engin hreyfing varð á greiðslumarki á síðasta ári. 

Þó að lítil hreyfing hafi verið á greiðslumarki þá hefur nautgriparæktin sjálf ekki setið auðum höndum. Veruleg fjárfesting hefur orðið í greininni og íslenskir kúabændur reisa myndarlegar byggingar þar sem allur aðbúnaður og vinnuaðstaða er til fyrirmyndar. Mjaltaþjónar verða æ algengari en sá böggull fylgir skammrifi að því tæknivæddari sem greinin er því mikilvægara er að innviðir á borð við flutningskerfi raforku þoli álag á borð við það sem birtist í óveðrinu fyrir jól. 

Að sama skapi hefur greinin fjárfest með kraftmiklum hætti í rannsóknum og þróun á síðustu árum eins og verkefni um innleiðingu erfðamarkaræktar í nautgriparækt ber vitni um. Mér er sagt að stytting ættliðabils um helming muni gjörbreyta allri ræktun til hins betra. Þá styttist í að innflutningur á nýju erfðaefni í nautakjötsframleiðslu fari að skila árangri með lækkuðum framleiðslukostnaði og bættum gæðum. Allt þetta sýnir djörfung og framsækni íslenskra bænda sem ætla sér að vera með á boðstólnum fyrsta flokks vöru í harðnandi samkeppni og keppa á gæðum og hreinleika matvæla, neytendum til góða.

Þá hafa kúabændur mikinn metnað í loftslagsmálum eins og nýi nautgriparæktar samningurinn ber vitni um, en þar er stefnt að kolefnishlutleysi árið 2040. Ljóst er að bæði þarf að draga verulega úr losun og auka bindingu til að það megi verða raunin. Þróun í vinnslu á íblöndunarefnum í fóður úr þara í þessum tilgangi á vonandi eftir að skila árangri. Kúabændur hafa aukið framleiðni sína gríðarmikið síðustu áratugi og ekkert bendir til að dragi úr þeirri þróun nema síður sé með bættri tækni við ræktun.

Stjórnvöld þurfa að setja sér stefnu í landbúnaðarmálum til lengri tíma en sem nemur einum búvörusamning. Þannig verði komist hjá því að undirstöðuatvinnugrein í dreifbýli líkt og mjólkurframleiðsla þurfi að búa við óvissu í rekstrarumhverfi sínu líkt og verið hefur. Sú hugsun var á bakvið samþykkta aðgerðaráætlun til verndar matvælaöryggi um mitt síðasta ár. Þar var kveðið á um að móta matvælastefnu til lengri tíma sem nú er unnið að og ég tel vera mjög mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað, neytendur og matvælaöryggi landsins.

Ég trúi því og treysti að með mótun slíkrar stefnu séum við að hefja metnaðarfulla sókn og framþróun í takt við vilja og metnað bænda – um framleiðslu á heilnæmum vörum í sátt við samfélagið og náttúruna.

Formaður atvinnuveganefndar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search