PO
EN

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Deildu 

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem var samþykkt á Alþingi 2016 tók til samþættingar geðheilbrigðisþjónustu og eflingar þekkingar. Sérstök áhersla var lögð á geðrækt og forvarnir, snemmtækar íhlutanir og sjálfsvígsforvarnir, og á að fólki væri ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var lögð áhersla á að geðheilbrigðisáætlun alþingis yrði fullfjármögnuð og henni yrði hrint í framkvæmd. Unnið hefur verið að því verkefni allt kjörtímabilið, og ég hef einnig lagt sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál.

Fjármagn til málaflokksins hefur verið aukið um rúma tvo milljarða á kjörtímabilinu, geðheilsuteymi hafa verið stofnuð um land allt sem er mikil bylting fyrir þá sem þurfa á þeirri þjónustu að halda, sálfræðingum hefur verið fjölgað talsvert í heilsugæslunni og samráð við notendur geðheilbrigðisþjónustu aukið. Sérstakt viðbótarfjármagn, 540 milljónir, var veitt á fjáraukalögum árin 2020 og á fjárlögum 2021 vegna Covid-19, til að efla þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu og nú er unnið að samningagerð um þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni og samningum við þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga, auk þess sem unnið er að því að koma á fót þverfaglegum geðheilsuteymum fyrir börn í heilsugæslunni.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum frá 2016 gilti til ársins 2020 og því var á síðari hluta kjörtímabilsins kominn tími til að móta nýja framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum. Í lok árs 2020 boðaði ég til geðheilbrigðisþings þar sem unnið var að mótun nýrrar framtíðarsýnar í geðheilbrigðisþjónustu til ársins 2030.

Á geðheilbrigðisþinginu komu fram skýrar ábendingar um að skilgreina þyrfti og sameinast um heildstæðan þjónustuferil þar sem öll þrjú þjónustustig geðheilbrigðisþjónustu ynnu saman að því að tryggja notendum og fjölskyldum þeirra skilvirka þjónustu. Til að tryggja að raunverulegar úrbætur nái fram að ganga er mikilvægt að veitendur og notendur geðheilbrigðisþjónustu komi saman að því að rýna þjónustuna og vinna að mikilvægu breytingaferli frá upphafi.

Afrakstur geðheilbrigðisþingsins var skýrsla um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem nýlega var birt í samráðsgátt stjórnvalda, og var opin til umsagnar þar til í byrjun júlí. Unnið verður úr umsögnun í heilbrigðisráðuneytinu og lokaskýrsla birt með haustinu. Í júní var svo boðað til vinnustofu um 100 fulltrúa veitenda geðheilbrigðisþjónustu og notenda í þeim tilgangi að rýna þjónustuferla í geðheilbrigðisþjónustu og gera tillögur að úrbótum. Sú vinna var einnig mikilvægt innlegg í næstu skref í að bæta geðheilbrigðisþjónustuna, okkur öllum til heilla.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search