PO
EN
Search
Close this search box.

Framtíðarþjónusta Landspítala

Deildu 

Upp­bygg­ing Land­spít­ala við Hring­braut er risa­vaxið verk­efni sem nú stend­ur yfir. Bygg­ing sjúkra­hót­els við Hring­braut var einn fyrsti áfang­inn í upp­bygg­ingu nýs Land­spít­ala við Hring­braut sem var náð á síðasta kjör­tíma­bili, en starf­semi í hús­inu hófst árið 2019. Nú er unnið að bygg­ingu meðferðar­kjarna, sem verður stærsta bygg­ing­in í Land­spít­alaþorp­inu og hjartað í hinum nýju bygg­ing­um við Hring­braut, auk þess sem skóflu­stunga var ný­lega tek­in að nýju rann­sókna­húsi og samn­ing­ur vegna hönn­un­ar og fram­kvæmda á nýju bíla­stæða- og tækni­húsi und­ir­ritaður.

Fram­kvæmd­ir vegna upp­bygg­ing­ar þjóðar­sjúkra­húss­ins okk­ar, Land­spít­ala við Hring­braut, marka risa­stórt og langþráð skref í efl­ingu heil­brigðisþjón­ustu í land­inu. Þær munu gera það að verk­um að hús­næði sjúkra­húss­ins mun stand­ast nú­tíma­kröf­ur og leiða til þess að mögu­legt verður að veita þeim sem leita á sjúkra­húsið hverju sinni enn betri þjón­ustu en áður, auk þess sem öll aðstaða fyr­ir starfs­fólk mun batna til muna.

Í upp­hafi fram­kvæmda vegna nýs Land­spít­ala var gerð þarfagrein­ing fyr­ir hús­næði spít­al­ans. Á síðari hluta síðasta kjör­tíma­bils var svo tek­in ákvörðun um að upp­færa þá grein­ingu. Áður en það er gert þurfa for­send­ur slíkr­ar þarfagrein­ing­ar að liggja fyr­ir. Heil­brigðisráðuneytið ákvað því að óska eft­ir liðsinni ráðgjafa við að kort­leggja for­send­ur þarfagrein­ing­ar Land­spít­ala og bauð út þjón­ustu ráðgjafa vegna framtíðarþjón­ustu nýs Land­spít­ala í lokuðu útboði eft­ir for­val. Í fram­hald­inu var gerður samn­ing­ur við alþjóðlega ráðgjaf­ar­fyr­ir­tækið McKins­ey árið 2020, og fyr­ir­tækið vinn­ur nú að gerð skýrslu um fjölda þátta sem viðkoma framtíðarþjón­ustu nýs Land­spít­ala við Hring­braut. Með McKins­ey starfar stýri­hóp­ur og tveir und­ir­hóp­ar, þar sem sitja m.a. full­trú­ar nokk­urra heil­brigðis­stofn­ana og full­trú­ar frá NLSH, lands­ráði um mönn­un og mennt­un í heil­brigðis­kerf­inu og tækniþró­un­ar­sjóði.

Ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­inu hef­ur verið falið að kanna nú­ver­andi hlut­verk Land­spít­ala í heil­brigðis­kerfi lands­ins og setja fram spá um þá þjón­ustu sem spít­al­inn mun þurfa að veita á næstu 20 árum þegar litið er til þró­un­ar í mann­fjölda, sjúk­dóms­byrði, land­fræðilegra þátta og hlut­verks sjúkra­húss­ins sem um­dæm­is­sjúkra­húss. Þá var McKins­ey gert að greina hlut­verk spít­al­ans sem há­tækni­sjúkra­húss sem og þátt þess sem há­skóla­sjúkra­húss í rann­sókn­um og þróun og mennt­un heil­brigðis­starfs­manna. Gert er ráð fyr­ir að vinnu McKins­ey ljúki með skil­um á skýrslu um miðjan des­em­ber 2021.

Þessi kort­lagn­ing á framtíðarþjón­ustu Land­spít­ala er mik­il­væg til þess að þjóðar­sjúkra­húsið geti sem best sinnt sínu hlut­verki, til að mynda með hliðsjón af hlut­verki sjúkra­húss­ins sam­kvæmt heil­brigðis­stefnu og lög­um um heil­brigðisþjón­ustu. Eins og upp­bygg­ing sjúkra­húss­ins sjálfs mun grein­ing­in einnig stuðla að betri heil­brigðisþjón­ustu fyr­ir alla lands­menn.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search