Uppbygging Landspítala við Hringbraut er risavaxið verkefni sem nú stendur yfir. Bygging sjúkrahótels við Hringbraut var einn fyrsti áfanginn í uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut sem var náð á síðasta kjörtímabili, en starfsemi í húsinu hófst árið 2019. Nú er unnið að byggingu meðferðarkjarna, sem verður stærsta byggingin í Landspítalaþorpinu og hjartað í hinum nýju byggingum við Hringbraut, auk þess sem skóflustunga var nýlega tekin að nýju rannsóknahúsi og samningur vegna hönnunar og framkvæmda á nýju bílastæða- og tæknihúsi undirritaður.
Framkvæmdir vegna uppbyggingar þjóðarsjúkrahússins okkar, Landspítala við Hringbraut, marka risastórt og langþráð skref í eflingu heilbrigðisþjónustu í landinu. Þær munu gera það að verkum að húsnæði sjúkrahússins mun standast nútímakröfur og leiða til þess að mögulegt verður að veita þeim sem leita á sjúkrahúsið hverju sinni enn betri þjónustu en áður, auk þess sem öll aðstaða fyrir starfsfólk mun batna til muna.
Í upphafi framkvæmda vegna nýs Landspítala var gerð þarfagreining fyrir húsnæði spítalans. Á síðari hluta síðasta kjörtímabils var svo tekin ákvörðun um að uppfæra þá greiningu. Áður en það er gert þurfa forsendur slíkrar þarfagreiningar að liggja fyrir. Heilbrigðisráðuneytið ákvað því að óska eftir liðsinni ráðgjafa við að kortleggja forsendur þarfagreiningar Landspítala og bauð út þjónustu ráðgjafa vegna framtíðarþjónustu nýs Landspítala í lokuðu útboði eftir forval. Í framhaldinu var gerður samningur við alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey árið 2020, og fyrirtækið vinnur nú að gerð skýrslu um fjölda þátta sem viðkoma framtíðarþjónustu nýs Landspítala við Hringbraut. Með McKinsey starfar stýrihópur og tveir undirhópar, þar sem sitja m.a. fulltrúar nokkurra heilbrigðisstofnana og fulltrúar frá NLSH, landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu og tækniþróunarsjóði.
Ráðgjafarfyrirtækinu hefur verið falið að kanna núverandi hlutverk Landspítala í heilbrigðiskerfi landsins og setja fram spá um þá þjónustu sem spítalinn mun þurfa að veita á næstu 20 árum þegar litið er til þróunar í mannfjölda, sjúkdómsbyrði, landfræðilegra þátta og hlutverks sjúkrahússins sem umdæmissjúkrahúss. Þá var McKinsey gert að greina hlutverk spítalans sem hátæknisjúkrahúss sem og þátt þess sem háskólasjúkrahúss í rannsóknum og þróun og menntun heilbrigðisstarfsmanna. Gert er ráð fyrir að vinnu McKinsey ljúki með skilum á skýrslu um miðjan desember 2021.
Þessi kortlagning á framtíðarþjónustu Landspítala er mikilvæg til þess að þjóðarsjúkrahúsið geti sem best sinnt sínu hlutverki, til að mynda með hliðsjón af hlutverki sjúkrahússins samkvæmt heilbrigðisstefnu og lögum um heilbrigðisþjónustu. Eins og uppbygging sjúkrahússins sjálfs mun greiningin einnig stuðla að betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra