Þegar ég tók við nýju ráðuneyti í lok árs 2021 varð mér fljótt ljóst að það þyrfti að gera gangskör í málefnum fiskeldis. Það kom mér ekki á óvart þar sem löngum hafa verið uppi afar skiptar skoðanir á málaflokknum í samfélaginu. Þegar litið er til framtíðar fiskeldis á Íslandi gera spár ráð fyrir enn frekari vexti, svo miklum að innan fárra ára eru líkur á því að verðmæti fiskeldisafurða fari fram úr aflaverðmæti þorsks. Ef slíkar spár eiga að rætast þurfum við að bretta upp ermar. Mikilvægt er að öll umgjörð um atvinnugreinina byggist á sjálfbærni, gagnsæi og góðri stjórnsýslu.
Horft til fortíðar og framtíðar
Í ársbyrjun 2022 óskaði ráðuneytið mitt formlega eftir því að Ríkisendurskoðun myndi hefja stjórnsýsluúttekt á sviði fiskeldis svo fljótt sem verða mætti. Þessi tilhögun var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda síðastliðið vor, ásamt því að tilkynnt var að dregið yrði úr útgáfu nýrra leyfa þangað til stefnumótun lyki. Í ágúst gerði matvælaráðuneytið svo samning við ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group um skýrslugerð um framtíð lagareldis á Íslandi. Við töldum mikilvægt að horfa ekki bara til fortíðar heldur líka til framtíðar. Samhliða framangreindu hafa verið stofnaðir starfshópar sem lúta annars vegar að smitvörnum í sjókvíaeldi og hins vegar stroki úr kvíum. Þessi vinna mun einnig gagnast við stefnumörkun og breytingar á regluverki.
Aldrei fleiri ábendingar
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru 23 ábendingar um úrbætur lagðar fram til sex stofnana. Stærsti hluti þeirra ábendinga er til míns ráðuneytis. Ríkisendurskoðun telur m.a. mikilvægt að efla eftirlit og að þvingunarúrræðum verði beitt með markvissari hætti. Þá þurfi að taka leyfisveitingarferlið til endurskoðunar. Við þessum athugasemdum þarf að bregðast og það verður verkefni okkar í matvælaráðuneytinu næstu misseri. Stærsti lærdómurinn að mínu viti er sá að lagaumgjörðin hefur ekki reynst fullnægjandi og að okkur hefur ekki auðnast að byggja upp getu stjórnsýslunnar á sama hraða og atvinnugreinin hefur stækkað.
Í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag
Von er á skýrslu Boston Consulting á næstu vikum um framtíðarsýn lagareldis á Íslandi. Þar er í forgrunni sjálfbær vöxtur greinarinnar, í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag. Þessari stefnumörkun munu fylgja lagabreytingar þar sem tekið verður tekið tillit til athugasemda Ríkisendurskoðunar. Sumum ábendingum getum við komið strax til framkvæmda þar sem þær kalla ekki á lagabreytingar, heldur breytta framkvæmd eða reglugerðarbreytingar. Skýrslan er svört, en ef við gerum úrbætur er framtíð lagareldis á Íslandi björt.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.