Nú á dögunum var haldin rafræn skólaþróunarráðstefna sem ber nafnið Utís online. Nafnið, Utís, stendur fyrir upplýsingatækni í skólastarfi og á rætur sínar að rekja til nýsköpunarstarfs í skólamálum í Skagafirði. Á þessum menntaviðburði voru yfir þrjú þúsund manns, fulltrúar leik-, grunn, framhaldsskóla, háskóla og fullorðinsfræðslu alls staðar af landinu. Áhugafólk um skólastarf og nýsköpun gat þar valið af hlaðborði fyrirlestra þekkts fræðafólks þar sem ígrundun var lykilþáttur. Þátttökupartý voru um land allt í skólum og menntastofnunum þar sem hápunkturinn var tónleikar á Græna hattinum með Á móti sól sem sendi gleði og skemmtun til allra þátttakenda Utís og skapaði einstaka stemningu. Þessi ráðstefna er stórkostleg starfsþróunarveisla sem hvetur og stuðlar að enn öflugra lærdómssamfélagi skólafólks sem deilir brennandi áhuga á skólaþróun.
Utís hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020 fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli. Á liðnum árum hefur þessi vettvangur færst meira frá áherslum á tækni í skólastarfi yfir í að fjalla um nám og líðan nemenda á breiðum grunni, sem er vel.
Einn liður á ráðstefnunni var ferðalag um íslenskt skólakerfi hvar hægt var að skoða stuttmyndir og heyra lýsingar af ýmsum verkefnum og þáttum skólastarfs sem tekist hafa vel og á einhvern hátt auðgað líf nemenda og starfsfólks skólanna. Kastljósinu er beint að framúrskarandi verkefnum, hugmyndaríkum og áhugasömum börnum og ungmennum og starfsfólki sem lifir fyrir starfið sitt. Það sem einkennir verkefnin er innileg virðing fyrir nemendahópnum, hvernig starfsfólk gefur allt sitt til að mæta þörfum barna og ungmenna á árangursríkan hátt og er stöðugt að kortleggja viðfangsefni við hæfi út frá aðalnámskrám og grunnþáttum menntunar. Einlæg hlýja og áhugi á því að auðga líf nemenda og finna leiðir til að börn og ungmenni fari í gegnum menntakerfin með styrkleika sína í forgrunni og séu örugg í umhverfi sem er styðjandi og þroskandi.
Það eru ólýsanlegir kraftar sem leysast úr læðingi þegar skólafólk kemur saman. Kraftar sem nýtast börnunum okkar og geta oft og tíðum gert kraftaverk í lífi þeirra sem njóta þeirra. Við þurfum að vera samfélag sem virðir skólastarf og gerir sér grein fyrir hvað það er mikilvægt fyrir öll börn og samfélagið allt. Það verður að sjá il þess að umhverfi barnanna sé heilsueflandi og þroskandi, að rými, námsefni og skipulag sé til þess fallið að efla og styðja við nám allra barna og þau fái tækifæri til að hafa áhrif. Þetta er samvinnuverkefni samfélagsins. Við þurfum að gefa menntamálum gaum, tala um allt það góða sem við vitum af og tryggja að börnin okkar heyri af frábærum kennurum, verkefnum og fjölbreyttum leiðum í skólastarfi. Það eflir jákvæðni og stolt barna og fullorðinna í garð skólastarfs og skapar virðingu í samfélaginu. Þegar skólafólk eflist faglega og byggir upp hæfni sína með þessum hætti græðir allt samfélagið, því það er sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja að börn fái gott uppeldi og menntun.
Álfhildur Leifsdóttir grunnskólakennari, Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir leikskólakennari og Sigríður Gísladóttir framhaldsskólakennari. Höfundar eiga sæti í stjórn VG.
Greinin birtist í Heimildinni 27. september 2024