EN
PO
Search
Close this search box.

Fríar tíðavörur í grunn­skólum Reykja­víkur­borgar!

Deildu 

Skóla-og frístundaráð hefur samþykkt tillögu ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða um fríar tíðavörur í alla grunnskóla og félagsmiðstöðva borgarinnar frá og með haustinu 2021. Ég vil byrja á að þakka fulltrúum sérstaklega fyrir þessa mikilvægu tillögu, þegar ungt fólk talar er það okkar kjörinna fulltrúa að hlusta. Ljóst er að aðgengi að tíðavörum er mikilvægt jafnréttismál. Ungmenni hafa ekki val um hvort og hvenær blæðingar hefjast og því mikilvægt að auðvelda aðgengi að tíðavörum á salernum í skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar.

Það getur aukið verulega á kvíða og streitu ungmenna að óttast að byrja á blæðingum á skólatíma eða þurfa að fara á salernið án þess að hafa tíðavörur meðferðis. Haustið 2018 hófst tilraunaverkefni um aukna markvissa kynfræðslu í tveimur skólum borgarinnar, samhliða fræðslunni hefur verið boðið upp á fríar tíðavörur á salernum skólans. Reynslan af verkefninu hefur verið afar jákvæð og þykir þeim nemendum sem hafa blæðingar öryggi felast í því að geta gengið að tíðavörunum vísum ef á þarf að halda.

Aðgengi að tíðavörum er auk þess mikilvægt heilsufarsmál, og staðan því miður þannig í heiminum í dag að aðgengi að slíkum vörum er víða ábótavant sem ógnar lífi og heilsu fólks víða um heim. Nú þegar hafa stjórnvöld lækkað virðisaukaskatt á tíðavörum og þannig viðurkennt að um nauðsynjavörur er að ræða fyrir um helming mannkyns og má þannig líkja við kaup á salernispappír, handþurrkum og öðrum slíkum vörum í skólum. Samhliða því að tryggja aukið aðgengi að tíðavörum er mikilvægt að auka fræðslu um tíðavörur á borð við álfabikar, fjölnota bindi og tíðanærbuxur og auka þekkingu á þeim fjölmörgu valkostum sem nú bjóðast. Auk þess er mikilvægt að allir nemendur hljóti fræðslu um líkamlegan þroska allra kynja þannig að vinna megi gegn þeirri skömm sem oft fylgir því að byrja á blæðingum. Slíkum fordómum er best eytt með upplýsingum og því er mikilvægt að skólasamfélagið vinni saman að því að draga úr skömm sem fylgir eðlilegri líkamsstarfssemi um helmings mannkyns.

Ég fagna þessarri tillögu og óska ykkur öllum til hamingju með fríar tíðavörur í grunnskólum borgarinnar.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna. Greinin birtist fyrst á visir.is.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search