Search
Close this search box.

Frumvarp forsætisráðherra um bætur vegna sýknudóms í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

Deildu 

Frumvarpi forsætisráðherra til laga um heimild til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu dreift á Alþingi

Frumvarpi forsætisráðherra til laga um heimild til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hefur verið dreift á Alþingi.

Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að greiða þeim bætur sem sýknaðir voru með dóminum og eftirlifandi mökum og börnum þeirra sýknuðu sem látnir eru. Í frumvarpinu kemur fram að enda þótt fjármunir geti aldrei bætt það tjón sem hinn rangláti dómur hefur valdið hinum sýknuðu og fjölskyldum þeirra sé eigi að síður nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði bætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum.

Frumvarpið tryggir að sérstök lagaheimild standi að baki greiðslu bóta með sanngirni og jafnræði gagnvart hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra að leiðarljósi. Þá er gert ráð fyrir skattfrelsi bóta.

Fram kemur í frumvarpinu að réttur aðila til að láta reyna á lögvarinn rétt sinn að öðru leyti fyrir dómi standi óhaggaður og þá komi bætur sem greiddar kunna að hafa verið samkvæmt lögunum til frádráttar.

Gengið er út frá því að samhliða framlagningu frumvarpsins og meðferð þess á Alþingi haldi viðræður við aðila máls áfram með það að markmiði að leita samkomulags um fjárhæð bóta og önnur atriði sem lúta að samfélagslegu uppgjöri málsins.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search