PO
EN

Fullt jafnrétti 2030

Deildu 

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur yfir og er að þessu sinni helguð stöðu kvenna á tímum örra tæknibreytinga. Jafnrétti kynjanna er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stundum er sagt að heimurinn eigi lengst í land með að ná því markmiði. Er þá mikið sagt en það er þyngra en tárum taki að baráttan fyrir jöfnum rétti kynjanna sé eilífðarverkefni. Á undanförnum árum hefur orðið bakslag í réttindum kvenna til að ráða yfir eigin líkama með strangari þungunarrofslöggjöf, bæði vestan hafs og í Evrópu. Kynbundið ofbeldi er meinsemd sem gengur allt of hægt að berjast gegn og enn hefur engin þjóð náð að útrýma launamun kynjanna. Á sama tíma vinna konur meiri ólaunaða vinnu en karlar. Og ný tækni veitir ekki aðeins tækifæri heldur færir okkur nýjar áskoranir í kynjajafnréttismálum.

Við erum líklega flest meðvituð um að verja æ meiri tíma í netheimum, hvort sem er í einkalífi eða vinnu. Samfélagsmiðlar eru stór hluti tilverunnar og hafa breytt samskiptum fólks. Samskiptaforrit breyta því hvernig fólk kynnist en ekki síður myndinni sem við drögum upp af okkur sjálfum fyrir heiminn. Efnisveitur sjá okkur fyrir afþreyingarefni þar sem gervigreind leggur til hvað við getum horft eða hlustað á næst. Öll þessi nýja tækni byggist á algrímum þar sem okkur er beint í tiltekna átt eftir því hvernig við erum metin af tækninni. Gervigreind er nýtt til að skanna atvinnuumsóknir og leggja til hvaða umsækjendur komast áfram í ferlinu. Gervigreind er nýtt innan læknisfræðinnar þegar reynt er að greina hvað amar að. Og þar skiptir máli hvers kyns við erum. Þó svo við teljum að tækin sé hlutlaus er það langt frá því að vera raunin. Algrímin eru hönnuð af fólki, oftast karlmönnum, og oft eru karllæg gildi og karllæg gögn lögð til grundvallar. Það er því lykilatriði að tryggja hlut kvenna í nýrri tækni, í menntun, rannsóknum og nýsköpun í tæknigreinum, og tryggja þannig að tæknin stuðli að jafnrétti kynjanna.

Tæknin hefur skapað nýjan vettvang fyrir kynbundið ofbeldi en þar hefur Ísland tekið forystu á alþjóðavettvangi með því að leiða ásamt öðrum þjóðum bandalag sem ber yfirskriftina Kynslóð jafnréttis. Við höfum óhrædd talað um þann grimma veruleika að heimilisofbeldisbrot eru um helmingur allra ofbeldisbrota á Íslandi og við sjáum aukin merki um stafrænt kynferðisofbeldi. Einnig þar hafa stjórnvöld líka gripið til skýrra aðgerða: Með því að breyta löggjöf og tryggja þannig ákvæði um kynferðislega friðhelgi og umsáturseinelti, ásamt því að stórbæta réttarstöðu brotaþola í löggjöf, auka fjármögnun þessa málaflokks og vinna samkvæmt forvarnaáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi og áreiti í grunnskólum landsins. Undirstaða þessa alls er hugmyndin um yfirráð kvenna yfir eigin líkama en Alþingi samþykkti framsækna þungunarrofslöggjöf 2019 á sama tíma og mörg önnur ríki fóru í þveröfuga átt.

Í dag mun ég mæla fyrir þingsályktunartillögu minni um aðgerðir gegn hatursorðræðu en þar er lögð áhersla á fræðslu um hatursorðræðu fyrir ólíka hópa. Einnig er lagt til að metið verði hvernig þau lagaákvæði sem ætlað er að takast á við hatursorðræðu hafa gagnast. Tillagan var unnin í breiðu samráði og ljóst að þörfin fyrir fræðslu og umræðu er mikil – ný tækni hefur skapað nýjan vettvang fyrir niðrandi umræðu sem hefur ekki síst neikvæð áhrif á yngri kynslóðir.

Kynbundinn launamunur hefur minnkað jafnt og þétt á Íslandi og þar hefur jafnlaunavottun vafalaust haft áhrif. Samt er enn kynbundinn launamunur sem að miklu leyti má skýra með ólíku starfsvali kynjanna og við það verður ekki unað. Núna er unnið að tilraunaverkefni um jafnvirði starfa – mati starfa út frá virði þeirra til að tryggja að hefðbundin kvennastörf séu metin til jafns við hefðbundin karlastörf. Það er von mín að þetta tilraunaverkefni skili því að allur vinnumarkaðurinn, bæði sá almenni og sá opinberi, taki upp jafnvirðisnálgun sem útrými því sem eftir stendur af kynbundnum launamun. Þá má ekki gleyma því að samfélagið allt reiðir sig á ólaunaða vinnu kvenna, ekki síst í margvíslegri umönnun innan fjölskyldunnar. Hagstofan vinnur nú að beiðni minni að tímarannsókn á því hvernig önnur og  þriðja vaktin skiptist á milli kynjanna – vonandi munu þær niðurstöður aðstoða við að skipta ólaunaðri vinnu jafnt milli kynjanna og meta ólaunaða vinnu að verðleikum.

Fæðingaorlof sem skiptist á milli beggja foreldra og leikskóli fyrir öll börn eru líklega þær kerfisbreytingar sem skilað hafa þeirri staðreynd að Ísland stendur jafn framarlega í kynjajafnréttismálum og raun ber vitni. Það er von mín að þær kerfisbreytingar sem verið er að innleiða í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni og ný nálgun í jafnlaunamálum komi Íslandi í mark þannig að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um fullt jafnrétti kynjanna náist fyrir 2030. Það væri sannarlega samfélag sem okkar kynslóð gæti verið stolt af að skila til barnanna okkar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search