Search
Close this search box.

Fullveldi í breyttum heimi

Deildu 

Þegar fagnað var stofn­un full­veld­is 1. des­em­ber 1918 voru aðstæður á Íslandi krefj­andi. Spánska veik­in geisaði enn, Kötlugos hófst í októ­ber og vet­ur­inn áður var svo kald­ur að ástæða þótti til að nefna hann frosta­vet­ur­inn mikla. Þess­ar ham­far­ir stöðvuðu þó ekki bar­áttu­hug þjóðar sem horfði fram á veg­inn ráðandi eig­in ör­lög­um.

Há­skóli Íslands var ný­stofnaður og fljót­lega var haf­ist handa við bygg­ingu Land­spít­al­ans. Verka­lýðshreyf­ing­in og kvenna­hreyf­ing­in börðust fyr­ir rétt­ind­um allra og breyttu þannig sam­fé­lag­inu til góðs. Síðar meir litu al­manna­trygg­inga­kerfið og fæðing­ar­or­lofið dags­ins ljós með það að mark­miði að jafna kjör fólks og auka fé­lags­lega og efna­hags­lega vel­ferð.

Þegar við fögn­um því í dag að vera full­valda þjóð er rétt að spyrja sig hvaða merk­ingu full­veldið hef­ur fyr­ir okk­ur sem búum á Íslandi í nú­tím­an­um. Lík­lega velt­um við því sjaldn­ast fyr­ir okk­ur hversu mikl­um fram­förum full­veldið hef­ur skilað – hvernig auk­in verðmæti og þekk­ing hafa orðið til ein­mitt vegna þess að við ráðum okk­ur sjálf og telj­um mik­il­vægt að eiga hér allt sem sjálf­stæð þjóð þarfn­ast þó að við séum fá­menn þjóð.

Á tím­um þar sem eitt ríki ræðst á annað full­valda ríki – eins og við sáum fyrr á þessu ári þegar Rúss­ar réðust inn í Úkraínu – sjá­um við hversu brot­hætt full­veldið get­ur reynst. Fyr­ir fá­ein­um árum þótti frem­ur hallæris­legt þegar við þing­menn Vinstri-grænna rædd­um fæðuör­yggi og mat­væla­ör­yggi – nú eru þessi orð á allra vör­um. Við sjá­um mik­il­vægi þess að við verðum í aukn­um mæli sjálf­um okk­ur nóg þegar kem­ur að mat­væla­fram­leiðslu og þar eru sókn­ar­færi fyr­ir sam­fé­lagið. Sem dæmi má nefna græn­met­is­rækt en nú eru upp und­ir 90% af því sem neytt er af ein­stök­um græn­metis­teg­und­um flutt inn. Hér eru tæki­færi í að gera bet­ur. Sama má segja um korn­rækt þar sem tæki­fær­in eru mik­il og mik­il­vægt að verða óháðari brot­hætt­um aðfanga­keðjum í inn­flutn­ingi.

Orkukrepp­an í Evr­ópu hef­ur ekki snert Íslend­inga á sama hátt og ná­grannaþjóðir okk­ar. Hús­in eru heit og öll raf­magns­tæki í gangi. Þegar rík­is­stjórn­in kynnti fyrstu fjár­mögnuðu aðgerðaáætl­un­ina í lofts­lags­mál­um bent­um við ein­mitt á það að fyr­ir utan hin aug­ljósu mark­mið að draga úr los­un og leggja þannig okk­ar lóð á vog­ar­skál­arn­ar í bar­átt­unni við lofts­lags­vána fæl­ust líka tæki­færi í því að nýta inn­lenda orku og verða óháðari inn­fluttu jarðefna­eldsneyti. Þannig erum við um leið óháðari öðrum um mik­il­væga þætti dag­legs lífs.

Á vett­vangi þjóðarör­ygg­is­ráðs höf­um við beint sjón­um að netör­yggi og fjar­skipt­um. Þetta snýst um sta­f­rænt full­veldi okk­ar: að við séum sjálf­bjarga um hina sta­f­rænu innviði, vara­leiðir og þrauta­vara­leiðir séu til staðar ef eitt­hvað kem­ur upp á og gang­virki sam­fé­lags­ins verði þannig varið. Und­ir­bún­ing­ur að lagn­ingu þriðja sæ­strengs­ins til Íslands, Íris­ar, hófst 2019 og er nú á loka­metr­un­um en með Írisi eykst fjar­skipta­ör­yggi hér á landi tí­falt. Hér er um mik­il­væga innviði að ræða sem stjórn­völd hafa lagt sí­aukna áherslu á á und­an­förn­um árum.

Til þess að full­veldið haldi áfram að færa okk­ur auk­in lífs­gæði og verðmæti verðum við að tryggja innviðina og að þeir mæti kröf­um sí­breyti­legs sam­fé­lags. Við meg­um þó ekki held­ur gleyma því sem ger­ir okk­ur að þjóð. Land, þjóð og tunga er sú þrenn­ing sem við hugs­um gjarn­an um þegar rætt er um full­veldi.

Þegar rætt er um nýt­ingu orku til að tryggja orku­ör­yggi meg­um við samt ekki falla í þá gryfju að fórna ís­lenskri nátt­úru. Þar verður skyn­sem­in að ráða för. Við eig­um ein­stök verðmæti í ósnort­inni ís­lenskri nátt­úru sem skipt­ir ekki aðeins okk­ur sjálf máli held­ur heim­inn all­an. Því skipt­ir máli að vanda sér­hverja ákvörðun á þessu sviði og gæta að viðkvæmu jafn­vægi nátt­úru og nýt­ing­ar.

Þegar kem­ur að tungu­mál­inu stönd­um við einnig frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Þrátt fyr­ir mikl­ar fjár­fest­ing­ar í mál­tækni á síðustu árum sem voru löngu tíma­bær­ar er áreiti enskr­ar tungu svo yfirþyrm­andi að við sjá­um börn og ung­menni leika sér sam­an á ensku – þó að móður­málið sé ís­lenska. Ráðherra­nefnd um ís­lenska tungu fundaði í fyrsta sinn í vik­unni og þar verða verk­efn­in stór og mik­il­væg. Auk­in ís­lensku­kennsla fyr­ir öll þau sem hafa ís­lensku sem annað mál, auk­in áhersla á að skapa efni á ís­lensku og aukn­ar kröf­ur til allra í sam­fé­lag­inu um að nýta ís­lensku á öll­um sviðum eru dæmi um brýn verk­efni. Rétt eins og nátt­úr­an er ís­lensk tunga ekki aðeins okk­ar auður held­ur menn­ing­ar­auðlegð fyr­ir heim­inn all­an.

Þessi dæmi sýna öll að full­veldið er ekki sjálf­gefið þó að við höf­um notið þess í 104 ár. Vak­in og sof­in eig­um við öll að standa vörð um full­veldið því að úr því hef­ur þjóðin sótt all­an sinn kraft og ham­ingju. Sú vaka er ekki síst mik­il­væg fyr­ir yngsta fólkið okk­ar og kom­andi kyn­slóðir.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search