Search
Close this search box.

Fylgist með rafrænu heilbrigðisþingi

Deildu 

Á föstudaginn, 20. ágúst, boða ég til heilbrigðisþings um framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Þetta er fjórða heilbrigðisþingið sem ég efni til í þeim tilgangi að styrkja stoðir heilbrigðiskerfisins og efla heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Bætt heilbrigðisþjónusta við aldraða hefur verið eitt af helstu forgangsmálum mínum á kjörtímabilinu. Áhersla hefur verið lögð á að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum, fjölga úrræðum og auka sveigjanleika þjónustunnar, samhliða átaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ákvörðun um að helga heilbrigðisþing 2021 heilbrigðisþjónustu aldraðra er í samræmi við þessa áherslu. 

Vegna Covid-19 verður þinginu streymt rafrænt og hægt að taka þátt í umræðum á þinginu á forritinu Slido. Dagskrá þingsins má sjá á vef þingsins, heilbrigdisthing.is. 

Á dagskrá þingsins er kynning á stefnudrögum Halldórs S. Guðmundssonar dósents við Háskóla Íslands um þjónustu við aldraða, en fyrr á þessu ári fól ég Halldóri að móta drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030. Í henni er dregin upp sýn að heildarskipulagi þjónustu við aldraða, samþættingu milli heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu og þverfaglegs samstarfs milli þjónustustiga. Einnig er horft til nýrra áskorana og fjallað um mögulegar breytingar á skipulagi þjónustunnar með hliðsjón af nýsköpun og þróun hérlendis og hjá nágrannaþjóðum. Stefnan var birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar í byrjun júlí síðastliðnum. 

Einnig eru á dagskrá, örfyrirlestrar frá fagfólki um málefnið, myndbandsinnslög og pallborð. Meðal fyrirlesara á þinginu eru Díana Óskarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir og þingmaður, Steinunn Þórðardóttir, yfirlæknir heilabilunardeildar Landspítala, Alma Möller landlæknir og Dr. Janus Guðlaugsson. Dr. Samir Sinha læknir og dr. í félagsfræði flytur einnig fyrirlestur á þinginu. 

Dr. Sinha hefur víðtæka reynslu og þekkingu á heilbrigðisþjónustu við aldraða, er eftirsóttur stefnumótandi á því sviði og hefur veitt ráðgjöf til spítala og heilbrigðisyfirvalda víða um lönd. Árið 2012 var hann skipaður af stjórnvöldum í Ontario til þess að stýra stefnumótun á þessu sviði á svæðinu og vinnur hann nú að heildstæðri landsáætlun fyrir Kanada. Utan Kanada hefur dr. Sinha veitt ráðgjöf til spítala og heilbrigðisyfirvalda í Bretlandi, Kína, Singapore, Bandaríkjunum og á Íslandi um framkvæmd og umsjón með einstökum, samþættum og nýstárlegum líkönum um öldrunarþjónustu sem draga úr sjúkdómsbyrði, bæta aðgengi og getu og stuðla að lokum að bættri heilsu aldraðra. 

Ég hvet öll til að fylgjast með þinginu og taka þátt í umræðum. Sjáumst á rafrænu heilbrigðisþingi 20. ágúst. 

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search