– úr þingræðu 26. maí;
Hafið er nýtt kapphlaup á Íslandi. Það eru 30 til 40 vindorkukostir til skoðunar og mjög margir í erlendri eigu. Þetta eru stórar vindmyllur í hnapp, eins og menn vita, 100–200 MW hver. Meðaltal afls þeirra allra, ef þetta er reiknað út, er 4.500–5.000 MW, þ.e. tvisvar sinnum meira en virkjað afl núna. Kostir og gallar vindorku eru margir og ég ætla ekki að rekja þá, en ég ætla þó að minna á að kolefnisfótspor vindorkuvera má ekki gleymast í öllu þessu.
Ég ætla að leggja áherslu á fjögur atriði: Að vindorka kemur vissulega til greina í bland við jarðvarma og vatnsafl. Að fyrir liggi ávallt að orkunýting vindorkulunda sé í samræmi við orkuþörf hverju sinni og sjálfbæra auðlindanýtingu. Að vindorka lúti samræmdu skipulagi og heildrænni nálgun, enda er það forsenda sjálfbærrar orkunýtingar og orkuframleiðslu. Í fjórða og síðasta lagi að til sé svæðaskipulag, þ.e. þannig að það sé ljóst að höfð sé heildarstjórn á öllu saman.
Það liggja fyrir tvö þingmál, þingsályktunartillaga um svæðaskipulag og breytingar á lögum um rammaáætlun. Í svæðisskipulaginu er það þannig að ekki eru heimil vindorkuver á 31% af landinu. Til álita koma þau á 53% af landinu og er það þá undir rammaáætlun og ráðherra sjálfum. Á forræði sveitarfélaga og annarra stjórnvalda eru þá 16%. Það eru svokölluð græn svæði. Ég ætla að hvetja Alþingi til að tryggja að vindorkukapphlaupið endi ekki úti í mýri. Við skulum hafa gamla Trabant-kjörorðið í heiðri: Skynsemin ræður.
Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður