PO
EN
Search
Close this search box.

GÆTUM VIÐ SAMEINAST GEGN FÁTÆKT?

Deildu 

Við eigum tölur um fátækt. Meðal annars nýlegar tölur frá Unicef á Íslandi að 9,1% barna á Íslandi líði skort, einkum þegar kemur að húsnæði. Þetta eru um 6000 börn og þar af líða um 1600 börn verulegan skort. Stór hluti þessara barna býr við óöruggt húsnæði, heldur ekki upp á afmælið sitt, stundar ekki tómstundastarf og þannig mætti lengi telja. Fátæktin stelur draumum og vonum þessara barna eins og 12 ára drengur á höfuðborgarsvæðinu orðaði það.

En við eigum fátækt fólk í öllum aldurshópum – þar nægir að horfa á tölur um lægstu laun, örorkubætur og ellilífeyri og bera þær saman við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins. Þar sést berlega að af þessum lægstu greiðslum er vandlifað.

Umræðan um fátækt er nú komin aftur á flug, þökk sé nýjum útvarpsþáttum Mikaels Torfasonar. En fátækt er birtingarmynd kerfis sem ýtir undir misskiptingu. Kerfis þar sem tölurnar sýna svart á hvítu að sköttum hefur verið létt af hinum tekjuhæstu en skattbyrði hinna tekjulægri hefur þyngst á síðustu árum. Kerfis þar sem félagslegt húsnæði hefur verið sett á markað með þeim afleiðingum að venjulegt fólk, hvað þá fátækt fólk, á í vandræðum með að koma sér þaki yfir höfuðið sem samt eru skilgreind mannréttindi. Kerfis þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga hefur aukist á undanförnum árum og áratugum og er nú hærri hér en til að mynda í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Kerfis þar sem fullorðnu fólki yfir 25 ára aldri er nú gert erfiðara fyrir að sækja sér menntun.

Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi. Stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn og aðgerðaáætlun um útrýmingu hennar og vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfið og bótakerfið – við vitum öll að þeir eru til. Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu á vettvangi þingsins við félagsmálaráðherra og hvað hann hyggst gera í þessum efnum. Um þetta ættu allir stjórnmálaflokkar að geta sameinast.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

21/03/2017/

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search