Search
Close this search box.

Gagnsæi eykur traust

Deildu 

Krafa um aukið gagnsæi í sjávarútvegi er hávær meðal almennings og það er mín bjargfasta trú að með því að auka gegnsæið skapist betri skilyrði fyrir trausti milli sjávarútvegs og almennings. Það er staðreynd að aukið gagn­sæi hef­ur já­kvæð áhrif á ýmsa þætti viðskipta­lífs. Það eyk­ur  lík­ur á að fyr­ir­tæki sýni ábyrgð og dreg­ur úr lík­um á að farið sé á svig við regl­ur.

Þá er aukið gagn­sæi lyk­il­atriði í því að bæta stjórn­un­ar­hætti þar sem nálg­ast má upp­lýs­ing­ar um alla þá þætti er máli skipta. Aukið gagn­sæi dreg­ur úr lík­un­um á hags­muna­árekstr­um og þar með er lík­legra að ákv­arðanir séu tekn­ar í þágu hlut­hafa og al­menn­ings. Það er ljóst að það er til mikils að vinna. Skortur á gagnsæi getur einnig verið sjálfstæð uppspretta vantrausts. Festist ógagnsæi í sessi til lengri tíma hefur það einnig neikvæð áhrif á traust almennings á stofnunum og á samfélagslegt traust. Stjórnvöld eru meðvituð um þessa stöðu, enda er fjallað um aukið gagnsæi í sjávarútvegi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Leiðarendanum var því lýst í stjórnarsáttmála: að auka gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. En ef við vitum ekki hvar við erum er erfiðara að finna rétta stefnu. Kortlagning á stöðu stjórnunar- og eignatengsla var talin þáttur í því að komast að því hver núverandi staða er. Þess vegna var matvælaráðuneytið í sambandi við Fiskistofu og Samkeppniseftirlitið varðandi gerð athugunar á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, í upphafi síðasta árs. Í ljós kom að Samkeppniseftirlitið hafði þegar ráðgert að ráðast í slíka athugun en að vegna takmarkaðra fjárheimilda væri ekki ljóst hvenær sú athugun gæti hafist. 

Var því ákveðið að ráðstafa þeim fjármunum sem matvælaráðuneytið hafði áformað til verksins til Samkeppniseftirlitsins en jafnframt var leitast við að athugunin gæti nýst fleiri eftirlitsstofnunum. Enda heimildir ráðuneyta til að gera samninga ótvíræðar. Auk þess var áhersla lögð á að byggja upp upplýsingatæknigrunn þannig að upplýsingar um eigna- og stjórnunartengsl í sjávarútvegi yrðu alltaf ljósar í rauntíma.  

Í kjölfar þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála féll í síðustu viku varð ljóst að samningi ráðuneytisins við Samkeppniseftirlitið verður slitið og fjármunir endurgreiddir. Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar gefið það út að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að hefja á ný athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, í samræmi við skýrar heimildir og hlutverk eftirlitsins.

Þá mun matvælaráðuneytið kynna drög að frumvarpi til laga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar í samráðsgátt í nóvember þar sem tekið verður mið af tillögum um gagnsæi í skýrslu Auðlindarinnar okkar. Enda er það mikilvæg forsenda aukinnar sáttar um sjávarútveg að gagnsæi sé ekki til skrauts heldur veruleiki.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search