Fyrir rúmu ári setti ég af stað vinnu um stefnumörkun í sjávarútvegi undir formerkjum Auðlindarinnar okkar. Verkefni þeirrar stefnumótunar er í samræmi við stjórnarsáttmála og snýst meðal annars um það að auka árangur og samfélagslega sátt um greinina. Við þá vinnu var ákveðið í upphafi að viðhafa sem mest gagnsæi, verkáætlun kynnt í samráðsgátt, fundargerðir birtar og nákvæmt yfirlit yfir allar athugasemdir sem bárust var birt í vor. Sem liður í þeirri stefnumótun var einnig gerð skoðanakönnun meðal almennings um afstöðuna til greinarinnar. Niðurstaðan var margþætt en ýmis atriði skáru sig úr. Sérstaka athygli vakti að mikill meirihluti almennings telur íslenskan sjávarútveg spilltan, raunar taldi einungis einn af hverjum sex landsmönnum sjávarútveg vera heiðarlegan.
Sú staða er óásættanleg fyrir stjórnvöld að ein mikilvægasta atvinnugrein landsins sé talin spillt af stórum hluta almennings en staðan er ekki síður alvarleg fyrir greinina sjálfa. Íslenskur sjávarútvegur þarf á því að halda að njóta stuðnings frá almenningi og þar með sóknarfæra og góðrar stöðu til framtíðar.
Gagnsæi bætir stjórnunarhætti
Það er staðreynd að aukið gagnsæi hefur jákvæð áhrif á ýmsa þætti viðskiptalífs. Bæði eykur það líkur á að fyrirtæki sýni ábyrgð og dregur úr líkum á að farið sé á svig við reglur. Þá er aukið gagnsæi lykilatriði í því að bæta stjórnunarhætti þar sem að nálgast má upplýsingar um alla þá þætti er máli skipta. Aukið gagnsæi dregur úr líkunum á hagsmunaárekstrum og þar með líklegra að ákvarðanir séu teknar í þágu hluthafa og almennings. Sé dregið frá og loftað út þá má ætla að betri skilyrði séu fyrir því að skapa traust milli sjávarútvegsins og almennings. Bæði um þau samfélagslegu deilumál sem hefur verið tekist á um áratugum saman en einnig til þess að gera greininni sem heild kleift að sýna forystu í umræðu um gagnsæi og réttlæti. Gagnsæi er ekki bara réttlætismál, heldur einnig afar mikilvæg forsenda framfara.
Grunnur til að byggja á til framtíðar
Þær niðurstöður sem kynntar verða upp úr stefnumótunarvinnunni Auðlindin okkar í ágúst verða til þess fallnar að skapa grunn til framtíðar. Sá grunnur verður að vera traustur og vera til þess fallinn að skapa skilyrði fyrir sjávarútveg til þess að byggja upp traust gagnvart almenningi. Réttlæti og gagnsæi eru leiðarstef í allri þeirri vinnu. Þær auðlindir sem sjávarútvegurinn hefur heimildir til að nýta eru sameign íslensku þjóðarinnar og því nauðsynlegt að tillögurnar byggi á þeim grunni.
Matvælaráðherra svandis.svavarsdottir@mar.is
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.