Search
Close this search box.

Gagnsæi og réttlæti í sjávarútvegi

Deildu 

Fyr­ir rúmu ári setti ég af stað vinnu um stefnu­mörk­un í sjáv­ar­út­vegi und­ir for­merkj­um Auðlind­ar­inn­ar okk­ar. Verk­efni þeirr­ar stefnu­mót­un­ar er í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála og snýst meðal ann­ars um það að auka ár­ang­ur og sam­fé­lags­lega sátt um grein­ina. Við þá vinnu var ákveðið í upp­hafi að viðhafa sem mest gagn­sæi, ver­káætl­un kynnt í sam­ráðsgátt, fund­ar­gerðir birt­ar og ná­kvæmt yf­ir­lit yfir all­ar at­huga­semd­ir sem bár­ust var birt í vor. Sem liður í þeirri stefnu­mót­un var einnig gerð skoðana­könn­un meðal al­menn­ings um af­stöðuna til grein­ar­inn­ar. Niðurstaðan var margþætt en ýmis atriði skáru sig úr. Sér­staka at­hygli vakti að mik­ill meiri­hluti al­menn­ings tel­ur ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg spillt­an, raun­ar taldi ein­ung­is einn af hverj­um sex lands­mönn­um sjáv­ar­út­veg vera heiðarleg­an.

Sú staða er óá­sætt­an­leg fyr­ir stjórn­völd að ein mik­il­væg­asta at­vinnu­grein lands­ins sé tal­in spillt af stór­um hluta al­menn­ings en staðan er ekki síður al­var­leg fyr­ir grein­ina sjálfa. Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur þarf á því að halda að njóta stuðnings frá al­menn­ingi og þar með sókn­ar­færa og góðrar stöðu til framtíðar.

Gagn­sæi bæt­ir stjórn­un­ar­hætti

Það er staðreynd að aukið gagn­sæi hef­ur já­kvæð áhrif á ýmsa þætti viðskipta­lífs. Bæði eyk­ur það lík­ur á að fyr­ir­tæki sýni ábyrgð og dreg­ur úr lík­um á að farið sé á svig við regl­ur. Þá er aukið gagn­sæi lyk­il­atriði í því að bæta stjórn­un­ar­hætti þar sem að nálg­ast má upp­lýs­ing­ar um alla þá þætti er máli skipta. Aukið gagn­sæi dreg­ur úr lík­un­um á hags­muna­árekstr­um og þar með lík­legra að ákv­arðanir séu tekn­ar í þágu hlut­hafa og al­menn­ings. Sé dregið frá og loftað út þá má ætla að betri skil­yrði séu fyr­ir því að skapa traust milli sjáv­ar­út­vegs­ins og al­menn­ings. Bæði um þau sam­fé­lags­legu deilu­mál sem hef­ur verið tek­ist á um ára­tug­um sam­an en einnig til þess að gera grein­inni sem heild kleift að sýna for­ystu í umræðu um gagn­sæi og rétt­læti. Gagn­sæi er ekki bara rétt­læt­is­mál, held­ur einnig afar mik­il­væg for­senda fram­fara.

Grunn­ur til að byggja á til framtíðar

Þær niður­stöður sem kynnt­ar verða upp úr stefnu­mót­un­ar­vinn­unni Auðlind­in okk­ar í ág­úst verða til þess falln­ar að skapa grunn til framtíðar. Sá grunn­ur verður að vera traust­ur og vera til þess fall­inn að skapa skil­yrði fyr­ir sjáv­ar­út­veg til þess að byggja upp traust gagn­vart al­menn­ingi. Rétt­læti og gagn­sæi eru leiðar­stef í allri þeirri vinnu. Þær auðlind­ir sem sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur heim­ild­ir til að nýta eru sam­eign ís­lensku þjóðar­inn­ar og því nauðsyn­legt að til­lög­urn­ar byggi á þeim grunni.

Mat­vælaráðherra svand­is.svavars­dott­ir@mar.is

Svandís Svavars­dótt­ir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search