Núgildandi stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 er að renna sitt skeið. Meginmarkmið stefnunnar var aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir. Það hefur verið mjög gott að hafa geðheilbrigðisstefnu Alþingis sem leiðarljós í embætti heilbrigðisráðherra og úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu á grundvelli hennar eru fjölmargar.
Samfélagið hefur öðlast aukinn skilning á mikilvægi góðrar geðheilsu og ég hef í ráðherratíð minni sett geðheilbrigðismál sérstaklega í forgang. Við höfum á kjörtímabilinu lagt áherslu á aukna fjölbreytni í meðferðarúrræðum, fullmannað geðheilsuteymi um allt land, stofnað sérstakt geðheilsuteymi fyrir fanga og sérstakt geðheilsuteymi fyrir fjölskyldur sem þurfa á stuðningi að halda við að stuðla að öruggri tengslamyndun barna. Við höfum eflt geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslum, en nú eru sálfræðingar í heilsugæslu um land allt tvöfalt fleiri en á árinu 2017 og í fjárauka-lögum á þessu ári og því næsta hefur verið samþykkt 540 m.kr. tímabundin viðbótarfjárveiting vegna Covid-19 til eflingar geðheilbrigðisþjónustu og fundað reglulega með samráðsvettvangi geðúrræða á höfuðborgarsvæðingu. Sem sérstakt viðbragð við Covid-19 hefur verið sett á fót tímabundið geðráð sem byggir á grundvelli samráðsfunda ráðuneytisins og samráðsvettvangsins.
Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu og með það markmið að leiðarljósi boða ég þann 9. desember til vefþings um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Þingið hefst kl. 9.00 og verður streymt af heimasíðu Stjórnarráðsins. Dagskráin er fjölbreytt og spennandi en fyrirlesarar munu meðal annars fjalla um fimm lykilatriði sem þeir telja mikilvæg varðandi framtíðarsýn í málaflokknum. Hægt verður að senda inn spurningar í gegnum vefforritið Slido og þannig taka virkan þátt í þinginu.
Að þinginu loknu verða haldnar vinnustofur þar sem þátttakendur vinna að mótun framtíðarsýnar með hliðsjón af áherslum heilbrigðisstefnu. Heilbrigðisráðuneytið mun vinna úr afrakstri vinnustofanna og leggja fram drög að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem verður kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, ásamt aðgerðaáætlun til næstu ára. Ný framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum mun taka mið af lykilviðfangsefnum heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem var samþykkt á Alþingið árið 2019. Ég vona að sem flestir fylgist með þinginu og taki í því virkan þátt.