Search
Close this search box.

Geðheilbrigðisþing 9. desember

Deildu 

Nú­gild­andi stefna og aðgerðaáætl­un í geðheil­brigðismál­um sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 er að renna sitt skeið. Meg­in­mark­mið stefn­unn­ar var auk­in vellíðan og betri geðheilsa lands­manna og virk­ari sam­fé­lagsþátt­taka ein­stak­linga sem glíma við geðrask­an­ir. Það hef­ur verið mjög gott að hafa geðheil­brigðis­stefnu Alþing­is sem leiðarljós í embætti heil­brigðisráðherra og úr­bæt­ur í geðheil­brigðisþjón­ustu á grund­velli henn­ar eru fjöl­marg­ar.

Sam­fé­lagið hef­ur öðlast auk­inn skiln­ing á mik­il­vægi góðrar geðheilsu og ég hef í ráðherratíð minni sett geðheil­brigðismál sér­stak­lega í for­gang. Við höf­um á kjör­tíma­bil­inu lagt áherslu á aukna fjöl­breytni í meðferðarúr­ræðum, full­mannað geðheilsu­teymi um allt land, stofnað sér­stakt geðheilsu­teymi fyr­ir fanga og sér­stakt geðheilsu­teymi fyr­ir fjöl­skyld­ur sem þurfa á stuðningi að halda við að stuðla að ör­uggri tengslamynd­un barna. Við höf­um eflt geðheil­brigðisþjón­ustu í heilsu­gæsl­um, en nú eru sál­fræðing­ar í heilsu­gæslu um land allt tvö­falt fleiri en á ár­inu 2017 og í fjár­auka-lög­um á þessu ári og því næsta hef­ur verið samþykkt 540 m.kr. tíma­bund­in viðbótar­fjárveit­ing vegna Covid-19 til efl­ing­ar geðheil­brigðisþjón­ustu og fundað reglu­lega með sam­ráðsvett­vangi geðúrræða á höfuðborg­ar­svæðingu. Sem sér­stakt viðbragð við Covid-19 hef­ur verið sett á fót tíma­bundið geðráð sem bygg­ir á grund­velli sam­ráðsfunda ráðuneyt­is­ins og sam­ráðsvett­vangs­ins.

Mik­il­vægt er að halda áfram að byggja upp geðheil­brigðisþjón­ustu og með það mark­mið að leiðarljósi boða ég þann 9. des­em­ber til vefþings um framtíðar­sýn í geðheil­brigðismál­um til árs­ins 2030. Þingið hefst kl. 9.00 og verður streymt af heimasíðu Stjórn­ar­ráðsins. Dag­skrá­in er fjöl­breytt og spenn­andi en fyr­ir­les­ar­ar munu meðal ann­ars fjalla um fimm lyk­il­atriði sem þeir telja mik­il­væg varðandi framtíðar­sýn í mála­flokkn­um. Hægt verður að senda inn spurn­ing­ar í gegn­um veffor­ritið Slido og þannig taka virk­an þátt í þing­inu.

Að þing­inu loknu verða haldn­ar vinnu­stof­ur þar sem þátt­tak­end­ur vinna að mót­un framtíðar­sýn­ar með hliðsjón af áhersl­um heil­brigðis­stefnu. Heil­brigðisráðuneytið mun vinna úr afrakstri vinnu­stof­anna og leggja fram drög að framtíðar­sýn í geðheil­brigðismál­um til árs­ins 2030 sem verður kynnt í sam­ráðsgátt stjórn­valda, ásamt aðgerðaáætl­un til næstu ára. Ný framtíðar­sýn í geðheil­brigðismál­um mun taka mið af lyk­ilviðfangs­efn­um heil­brigðis­stefnu til árs­ins 2030 sem var samþykkt á Alþingið árið 2019. Ég vona að sem flest­ir fylg­ist með þing­inu og taki í því virk­an þátt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search