Search
Close this search box.

Gerum Hafnarfjörð að fyrirmynd í loftslagsmálum

Deildu 

Ég vil að Hafnarfjörður sé til fyrirmyndar og uppfylli skuldbindingar sínar í loftslagsmálum.

Til þess að svo verði þarf bærinn að haga skipulagi sínu og uppbyggingu innviða þannig að fólk hafi val um að sækja verslun, þjónustu og atvinnu í nærumhverfi og að hjólreiðar, gangandi fólk og almenningssamgöngur séu í forgangi. Það þýðir að við getum ekki dreift byggðinni frekar heldur þurfum að þétta hana án þess þó að græn svæði líði fyrir.

Við framkvæmdir verður að nýta jarðveg betur og endurnýta það lífræna efni sem til fellur við lagfæringar eftir rask. Forðast þarf að byggja nærri votlendi og leitast fremur við að vernda og endurheimta gróðurþekjuna og vistkerfin í bæjarlandinu með landgræðslu og skógrækt.

í samvinnu við byggingariðnaðinn verður að gera byggingarstarfsemi loftslagsvænni með betri nýtingu timburafurða, minni og loftslagsvænni steypu, viðhaldi og endurnýtingu eldri bygginga ásamt nákvæmari sorpflokkun á byggingarsvæðum.

Bærinn þarf að stuðla að orkuskiptum í samgöngum, hjá sveitarfélaginu sjálfu vitanlega, en einnig hjá fyrirtækjum, stofnunum í bænum og íbúum. Það verður að gera allt sem hægt er til að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir umhverfisvænni orkugjafa, hvort sem er á sjó eða landi.

Innkaupastefna sveitarfélagsins verður að vera græn, þ.m.t. kaup á verktakaþjónustu, og forðast þarf óþarfa innkaup. Draga þarf úr matarsóun í matsölum á vegum sveitarfélagsins og bjóða upp á meira úrval af grænmeti og jurtafæði. Sorpflokkun má svo bæta til muna í bænum.

Þá þarf að innleiða væntanleg lög um hringrásarhagkerfið og búa til innviði fyrir atvinnulífið og fjölga grænum störfum til þess að skapa grænt og farsælt samfélag með sjálfbæru hagkerfi.

Á næstunni verður samþykkt loftslagsstefna og aðgerðaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Við í VG munum lúslesa hana og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum aðgerðum svo Hafnarfjörður uppfylli skuldbindingar sínar, fáum við tækifæri til þess.

Davíð Arnar Stefánsson

Höfundur er sérfræðingur á sviði loftslags og sjálfbærni hjá Landgræðslunni og oddviti lista VG í Hafnarfirði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar þann 14. maí.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search