Search
Close this search box.

Gerum rétt í Reykja­vík og frelsum menntun barna frá greiðslu­seðlunum

Deildu 

Öll börn eiga rétt á menntun óháð tekjum foreldra þeirra. Þess vegna er ekki rétt að láta þau borga skólagjöld í leikskólum. Það er heldur ekki rétt að láta þau borga fyrir skólamáltíðir. Við Vinstri græn viljum gera það sem er rétt. Þess vegna höfum við unnið að því í borgarstjórn Reykjavíkur að gera menntun barna gjaldfrjálsa bæði í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum.

Frá árinu 2014 höfum við átt aðild að meirihlutasamstarfi í borgarstjórn þar sem við höfum barist fyrir því að gera menntun barna gjaldfrjálsa. Þrátt fyrir að samstarfsflokkar okkar deili ekki með okkur þessari stefnu hefur okkur engu að síður tekist að sannfæra þau um að stíga nokkur mikilvæg skref í þessa átt.

Það er ekki tilviljun að leikskólagjöld í Reykjavík eru þau lægstu á landinu. Sem dæmi má nefna að leikskólagjöld fyrir eitt barn eru 14.300 krónum lægri í Reykjavík en í nágrannasveitarfélaginu Garðabæ. Það eru 143 þúsund krónur á ári. Í Reykjavík borga foreldrar margra barna aðeins eitt námsgjald þvert á skólastig (leikskóli og frístund) öfugt við flest önnur sveitarfélög. Eins greiða foreldrar margra barna aðeins skólamáltíðir fyrir tvö börn þvert á skólastig. Allt þetta er tilkomið vegna skýrrar stefnu okkar Vinstri grænna og baráttu.

Þessari réttlætisbaráttu okkar er hins vegar ekki lokið. Við viljum ganga lengra og tryggja öllum börnum í Reykjavík gjaldfrjálsa menntun. Til þess þurfum við fleiri borgarfulltrúa og að raddir þeirra ómi í borgarstjórn. Með einn borgarfulltrúa í tólf fulltrúa meirihluta hefur okkur tekist að færast nær markmiði okkar um endurgjaldslausa menntun. Með hverju atkvæði og hverjum borgarfulltrúa sem við bætum við okkur munum við færast nær því markmiði. Gerum það sem er rétt fyrir börn og foreldra þeirra og stuðlum að jafnrétti til náms óháð öllum tekjum reykvískra heimila.

Verið með okkur í liði í þessu réttlætismáli og setjum X við V 14. maí. Þá rennur upp sá dagur að öll börn sitja við sama borð.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search