Search
Close this search box.

Gerum það sem þarf.

Deildu 

Óveðursský hrannast upp í efnahagsmálum vegna COVID-19 faraldursins. Ljóst er að hann mun hafa mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf, sem og önnur lönd. Ísland stendur vel, ólíkt mörgum öðrum löndum. Ríkisfjármálin og fjármálakerfið hafa, frá hruni, verið byggð upp til að standa af sér áfall og nú búum við að því. Því getum við gripið til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við áföllum og örvað efnahagslífið.

Ríkisstjórnin tilkynnti á þriðjudag um að brugðist verði við stöðunni með aðgerðum og mynduð viðspyrna fyrir íslenskt efnahagslíf. Þetta er fyrsta skref af mörgum, raunar annað þar sem áður hefur verið tilkynnt um að fólk í sóttkví fái laun. Staðan sem við erum í býður ekki upp á heildarpakka sem kynntur verði í smáatriðum í eitt skipti fyrir öll, heldur þarf markvissar aðgerðir sem taka mið af stöðunni hverju sinni.

Sjónum er fyrsta kastið beint að því að styðja atvinnulífið og þar með okkur öll, því fyrirtækin eru ekki annað en fólkið sem þar vinnur. Mikilvægt er að mæta því áfalli sem ljóst er að mörg fyrirtæki verða fyrir, ekki síst eftir að Donald Trump tók þá fáránlegu ákvörðun að setja ferðabann á Schengen-svæðið. Nánari útfærsla á þeim aðgerðum verður kynnt á næstunni. Hugað verður að því að aðgerðirnar nýtist best þar sem þörfin er mest. Næstu skref verða síðan stigin eftir þörf til að verja velferðina.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna í gær og í dag verður fundað með fleiri aðilum, til dæmis aðilum vinnumarkaðarins. Það er mikilvægt að við sýnum samstöðu í erfiðri stöðu sem nú. Við þurfum öll að taka höndum saman til að bregðast við, þar skiptir engu hvar í flokk við skipum okkur.

Okkar alþingismanna bíður að takast á við mikilvæg mál sem munu skipta sköpum fyrir þjóðarbúið. Þar verðum við að sýna ábyrgð. Gerum það sem gera þarf og gerum það saman.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search