Search
Close this search box.

Geysir loks friðaður

Deildu 

Ha, er Geysir ekki friðaður!? Hvernig má það vera? Þannig hafa viðbrögð margra verið vegna fyrirhugaðrar friðlýsingar Geysis. Sá tímamótaviðburður varð svo í sögu þjóðarinnar á þjóðhátíðardaginn í gær að Geysissvæðið í heild sinni var friðlýst. Til hamingju öll!

Árið 1894 keypti breskur maður hluta hverasvæðisins, en árið 1935 komst svæðið í eigu kaupsýslumanns að nafni Sigurður Jónasson. Hann gaf það íslensku þjóðinni. Við tilefnið sagði Sigurður: „Ég álít persónulega að ríkið ætti að eiga slíkan dýrgrip sem Geysir er … og álít ég nærri því sjálfsagt að gera svæðið í kringum hverina að eins konar þjóðgarði.“ Árið 2016 komst allt svæðið í eigu ríkisins og í gær varð friðlýsingin loksins að veruleika.

Ég man enn þá þegar ég kom í fyrsta skipti að Geysi. Ég hafði nýverið eignast fyrstu myndavélina mína. Í þá tíð var framköllun dýr fyrir átta ára gutta. Ég var hins vegar svo bergnuminn að ég tók einar sextán myndir af Strokki að gjósa og allar voru þær nokkurn veginn eins! Upplifunargildi svæðisins verður sennilega seint hægt að meta. Geysissvæðið er gríðarlega mikilvægt fyrir ferðaþjónustu og þjóðarbúið í heild sinni. En það þarf að hlúa mun betur að svæðinu og nú er unnið að því að meta í hvaða verndaraðgerðir þurfi að ráðast.

Virði landvörslu og fræðslu á Geysissvæðinu er ómetanlegt, enda er það eitt þekktasta goshverasvæði Jarðar. Það er einstakt á heimsvísu og hefur mjög hátt vísindalegt gildi. Náttúruundrin eru á hverju strái, gufuhverir, leirhverir og leirugir vatnshverir. Hinn síkviki Strokkur sem dregur að sér fólk eins og segull, Blesi, Sóði og Vigdísarhver. Að Geysi sjálfum ógleymdum, þó hann liggi nú í dvala.

Svo þekktur er Geysir að almennt heiti yfir goshveri á erlendum tungumálum er „geyser“. Þannig má með sanni segja að friðlýsing Geysis sé heimsviðburður. Við getum verið virkilega stolt af að hafa nú verndað hann fyrir komandi kynslóðir á Jörðinni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search