Search
Close this search box.

Gjaldfrjáls skólaganga

Deildu 

Áhverju hausti er eftirvænting og tilhlökkun í hugum sex ára barna eftir að fá að byrja í grunnskóla. En á sama tíma fyllast foreldrar sumra þeirra kvíða og áhyggjum yfir þeim kostnaði sem af muni hljótast. Því þó skólaganga eigi að vera gjaldfrjáls, og okkur þyki öllum sjálfsagt að börn hafi jafnan aðgang að menntun og skólakerfinu, er raunin því miður ekki sú. Þessu þurfum við að breyta.

Yfir hálf milljón á ári

Í Kópavogi þarf par með tvö börn í 1. til 4. bekk grunnskóla, sem bæði eru í frístund og hádegismat í skólanum, að borga yfir 51 þúsund á mánuði fyrir skólagöngu barnanna sinna ef viðvera í frístund er að jafnaði tveir tímar á dag.

Einstæð foreldri, námsmenn og öryrkjar borga rúmlega 44 þúsund fyrir sömu þjónustu. Kostnaðurinn er breytilegur eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og systkinaafslættir mismunandi, en alls staðar er einhver kostnaður. Við það bætist oft kostnaður vegna ferða og skemmtana utan skólatíma, mismikill eftir skólum og aldri barnanna.

Meðalfjölskylda getur því hæglega þurft að greiða yfir hálfa milljón á ári með skólagöngu barna sinna.

Gjaldfrjáls svæði

Auðvitað kostar peninga að veita þessa þjónustu, en sveitarfélög eiga að hafa metnað til að gera skólana gjaldfrjálsa.

Allt er þetta spurning um forgang, en við getum búið svo um hnútana að barnafjölskyldur séu í skjóli fyrir gjaldtöku í skólanum. Það kann að vera að það þurfi að breyta þessu í áföngum, en það er mikilvægt að taka strax ákvörðun um að stefna í þessa átt. Þannig jöfnum við aðstöðu barnanna og gerum öllum börnum kleift að taka eins fullan þátt í daglegu starfi skólans síns og þau vilja og geta.

Við Vinstri græn viljum að skólinn sé gjaldfrjálst svæði.

Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti Vinstri grænna í Kópavogi

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search