Search
Close this search box.

Glæpurinn kyn­lífsman­sal

Deildu 

Við Íslendingar höfum sýnt það með löggjöf og samfélagslegri sátt að við lítum kynferðisbrot sérstaklega alvarlegum augum. Kynlífsmansal er alvarlegasta kynferðisbrot sem hægt er að fremja og því þurfa valdhafar hvers tíma að leggja sig fram við að endurspegla vilja þjóðarinnar í þessum efnum.

Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem lýsa því skýrt yfir að við berum lagalega ábyrgð gagnvart þolendum mansals þó þeir hafi ekki orðið fyrir mansali á Íslandi. Ekki er svo síður mikilvægt að árétta að við berum sem samfélag líka siðferðislegar skuldbindingar sem manneskjur gagnvart þeim sem brotið hefur verið á með þesum alvarlega hætti.

Við vitum í dag hversu alvarleg og langvarandi áhrif kynferðisbrot hafa á þolendur enda sýna allar rannsóknir fram á það. Rannsókn Stígamóta frá árinu 2022 sýnir að vændi hefur alvarlegri afleiðingar á brotaþola en önnur kynferðisbrot og því er auðvelt að gera sér í hugarlund að þolendur kynlífsmansals þurfi að kljást við enn alvarlegri afleiðingar.

Hluti af afmennskun og niðurbroti mansalsþolenda er að taka af þeim gild skilríki þannig að þau séu háð kvölurum sínum um ferðafrelsi. Fólk er þannig yfirleitt flutt milli landa á fölsuðum skilríkjum til að gera því erfiðara að leita sér aðstoðar. Það er einhvers konar ný vídd í þolendaskömmun að gera þolendur mansals ábyrga fyrir þeim hörmungum sem þau hafa orðið fyrir og ákæra slíka einstaklinga fyrir skjalafals vegna hinna fölsuðu skilríkja. Að nota það gegn mansalsþolendum að þau hafi komið til landsins á fölsuðum skilríkjum má segja að sé sambærilegt við að nota það gegn þeim að þau hafi orðið fyrir kynferðisbroti.

Samkvæmt íslenskum lögum stendur þolend­um man­sals til boða að fá hús­næði, fjár­hags- og lög­fræðiaðstoð og í boði er dvalarleyfi fyrir staðfesta þolendur mansals. Með lagabreytingu frá árinu 2019 standa þessi úrræði einnig til boða fyrir hugsanlega þolendur mansals. Vilji löggjafans er skýr og það er vilji almennings líka. Þolendur kynlífsmansals eiga alltaf að njóta vafans og lagatæknileg atriði eiga aldrei að standa í vegi fyrir réttlátri meðferð þeirra mála. Þessum hópi , sem fyrst og fremst samanstendur af konum sem hingað hafa komið gegnum hryllilegar aðstæður eigum við að veita skjól.

Ég geri orð hæstvirts dómsmálaráðherra frá því í október í svari við fyrirspurn um mansal á Íslandi að mínum: „Það er viðvar­andi verk­efni hverr­ar þjóðar að berj­ast gegn man­sali og mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum.“

Jódís Skúladóttir er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search