Kæru vinir,
Heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að gera þjónustusamning við Ljósið um endurhæfingarþjónustu við fólk sem greinst hefur með krabbamein. Fjármögnun Ljóssins hefur hingað til byggst á styrkframlagi frá Vinnumálastofnun og heilbrigðisráðuneytinu til eins árs í senn og söfnunarfé, en með þessu breytta flæði fjármagns frá ríkinu munum við geta snúið okkur enn betur að innra starfi Ljóssins og að efla endurhæfingu krabbameinsgreindra.
„Árlega sækja á annað þúsund einstaklinga sér þjónustu hjá Ljósinu. Því er mikið í húfi að tryggja rekstrargrundvöll þessarar mikilvægu þjónustu þannig að notendur og starfsfólk búi við það lágmarksöryggi sem verður að vera fyrir hendi í svona starfsemi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í fréttatilkynningu sem var send fjölmiðlum í morgun.