Search
Close this search box.

Gleðilegan konudag

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, flutti ávarp í hátíðarguðþjónustu Vídalínkirkju í morgun í tilefni af konudeginum. Guðsþjónustunni var útvarpað á Rás 1.

Gleðilegan konudag

Fyrir um tveimur árum var skyndilega hægt á þeim hraða lífstíl sem svo mörg hafa tileinkað sér. Heimsfaraldur skall á og fólki var gert að halda sig heima til að koma böndum á faraldurinn. Þessi tími skilur margt eftir sig. Mikilvægi þess að rækta okkur sjálf og sambandið við okkar nánustu hefur sennilega aldrei verið jafn mikið í opinberri umræðu áður. Fæðu- og matvælaöryggi er skyndilega á allra vörum – við vorum minnt á það að taka engu sem sjálfsögðum hlut heldur þurfum við að rækta og varðveita það sem okkur hefur verið gefið.  

Á konudaginn, fyrsta dag í Góu, er gott að staldra við og minnast formæðra okkar sem ólust upp við aðrar aðstæður en við sem hér erum flestar hverjar. Hver man ekki eftir mömmu sinni eða ömmu að snúast tímunum saman í eldhúsinu að stjana við heimilisfólk og gesti. „Fáðu þér meira endilega,“ „fyrirgefðu þetta lítilræði,“ „það er nóg til frammi!“

En er nóg til? Já það er nóg til en því miður er enn mikið óréttlæti og ójöfnuður í því hvernig allsnægtum er útdeilt og fæðuöryggi er sameiginlegt verkefni allra þjóða. Á meðan tæplega 700 milljónir manna eru vannærðar endar 17% af öllum mat sem framleiddur í heiminum – í ruslinu. Þetta þarf að leiðrétta og það er verkefni sem við getum öll tekið þátt í. 

Stundum er sagt að við séum það sem við borðum – en hvað borðum við? Eitt af því sem hefur breyst frá því formæður okkar voru önnum kafnar í eldhúsunum er að margar þeirra gerðu allan mat frá grunni. Í hraða nútímans veljum við oft stystu leiðina og oftar en ekki eru það unnin matvæli sem verða ofan á. Það er svo einfalt og fljótlegt – þótt við þekkjum ekki nema brot af innihaldslýsingunni. En við þurfum að tengja betur. Við þurfum að rækta samband okkar við mat og matvælaframleiðslu. Nýta hráefnin betur, velta því fyrir okkur hvaðan þau koma og hvernig þau er búin til. Velja hreina fæðu, næringarríka og setja upp loftslagsgleraugun þegar við veljum vörurnar í körfuna, hugsa um uppruna vörunnar og kolefnissporið. Gerum það fyrir umhverfið en ekki síður okkur sjálf til að draga úr líkum á lífsstílssjúkdómum. Heilsa og mataræði haldast líka í hendur.

Í gegnum aldirnar hafa konur gegnt meginhlutverki í því að afla matar, matbúa og bera ábyrgð á því að metta og næra og í mörgum löndum gera þær það enn. Hjá flestum börnum er móðurmjólkin sú næring sem kemur þeim á legg. Lengi vel ræktuðu konur jörðina, þær uppskáru, þær unnur úr hráefninu og varðveittu, þær elduðu og þær báru matinn fram – OG gengu frá! Þetta er mikilvæg saga, vanmetin og stundum ekki skráð til fulls. Leiðum hugann að því á þessum degi og því hvernig þekking á hráefnum, aðferðum og nýtni hefur varðveist milli kynslóða. Þarna eru verðmæti sem við skulum huga að.

Matvælaframleiðsla í hinum vestræna heimi hefur nú oftar en ekki á sér allt annan brag og öllu karllægari. Hnattvæðingin, vélvæðingin og markaðshyggjan hefur gert að verkum að oft er magn sett ofar gæðum og mikið land hefur verið brotið undir matvælaframleiðslu. Miklu hefur verið fórnað, þar á meðal líffræðilegri fjölbreytni, sem við hér á Íslandi höfum enn tækifæri til að varðveita og höfum skyldur við.

Vandana Shiva, indverskur femínisti, umhverfis- og matvælaaktívisti – og Íslandsvinkona, segir að konur þurfi að endurheimta þau yfirráð sem þær áður höfðu í fæðuframleiðslunni. Það er nefninlega heilmikil pólitík í matvælageiranum og sú pólitík er drifin áfram af hagrænum hvötum. En hver er staða þeirra kvenna á Íslandi sem nú rækta landið? Eru konur nægilega sýnilegar? Hafa þær nægilega sterka rödd? Er hlutverk þeirra í landbúnaði og ræktun metið að verðleikum? Hver er staða kvenna almennt í matvælaframleiðslu á Íslandi í dag? Þetta finnst mér verðugt rannsóknarefni.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að okkur mannfólkinu fjölgar sem þýðir auðvitað að fleiri munna þarf að metta. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að maðurinn hefur gengið hressilega á auðlindir jarðar á örfáum áratugum, þróun sem verður að snúa við. Því er alveg ljóst að við þurfum að ganga betur um og varðveita auðlindir fyrir komandi kynslóðir með sjálfbærni að leiðarljósi. Auðlindirnar eru nefnilega takmarkaðar.

Sem betur fer eru ýmis merki um um að hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað en við þurfum hugarfarsbyltingu þegar kemur að sambandi okkar við mat. Sú bylting þarf að byggja á markmiðum okkar í loftslagsmálum, sjálfbærni, lýðheilsu og jafnrétti.

Í heimsfaraldri höfum við líka verið minnt á mikilvægi þess að rækta landið og varðveita. Við þurfum að ganga vel um auðlindir okkar. Allar auðlindir okkar. Undanfarnar vikur hafa farið fram miklar umræður um orkuskort í landinu og það ákall þurfum við að taka alvarlega. En við þurfum líka að horfa til framtíðar í þessum efnum. Það kann að vera að við þurfum að virkja meira en við þurfum að stíga varlega til jarðar. Það er mikilvægt að nýta orkuna fyrir orkuskipti hér á Íslandi, virkja eins lítið og við komumst upp með og varðveita náttúruauðlindir landsins fyrir komandi kynslóðir. Liður í því er að tryggja auðlindaákvæði og umhverfisákvæði í stjórnarskrá.

Í heimsfaraldri höfum við lært að taka engu sem gefnu. Náttúra Íslands er auðlind sem okkur ber að varðveita. Auðlind sem við höfum fengið að láni frá komandi kynslóðum. Hún veitir okkur ríkuleg vistkerfi, sjálfbæra orku, frjóan jarðveg fyrir ræktun matvæla, gjöful fiskimið, loftgæði og hreint vatn. Ræktum samband okkar við náttúruna betur og af varúð. Förum út og öndum að okkur þeirri staðreynd að ekkert er gefið. Stöldrum við hér og nú og þökkum fyrir það sem okkur hefur verið gefið – og varðveitum það. Fyrir komandi kynslóðir. 

Við höfum lært mikið af heimsfaraldri og nú er að nýta þann lærdóm til að gæta betur að því að sérhver ákvörðun okkar hvers og eins í dagsins önn hefur áhrif á tækifæri komandi kynslóða í stóru og smáu. Gætum að þessari ábyrgð um leið og við gleymum ekki því stórkostlega ævintýri sem hver dagur er.

Njótið dagsins, konur – og karlar, um land allt. Gleðilegan konudag. 

Hér er hægt að hlusta á guðsþjónustuna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search