Search
Close this search box.

Gleðilegan þjóðhátíðardag – ræða Katrínar Jakobsdóttur

Deildu 

Kæru landsmenn

Ég heilsa ykkur hér á þessum degi, degi þar sem við leggjum dagleg störf til hliðar. Degi sem ég tengdi í bernsku við að fara í miðbæ Reykjavíkur og borða pylsu, iðulega í rigningu og roki. Þetta er dagur sem við eigum saman og gefur okkur ráðrúm og tilefni til að hugsa um Ísland, landið sem við búim í, og okkur sjálf; hugsa um hvað það merkir að vera þjóð og hvað þessi dagur merkir í samtímanum. 

Hvenær skiptir það mann máli að vera einhverrar þjóðar? Erum við ekki líka Reykvíkingar, Vestfirðingar, Mýrdælingar? KR-ingar, Þórsarar, Skagamenn? Karlar, konur, kynsegin? Þingmenn, verkafólk, kennarar, hjúkrunarfræðingar? Hvenær erum við Íslendingar?

Kannski gerði faraldurinn okkur að meiri „þjóð“ en við höfum lengi verið. Fólk sem allt í einu varð einangrað frá umheiminum, fann nú áþreifanlega fyrir því að allt sem hver og einn gerði – skipti okkur öll máli. Allt í einu vorum við – sem búum í þessu samfélagi – tengd áþreifanlegum böndum í einum vefnaði, ofin saman í samfélaginu okkar. Og um leið reyndist þessi vefnaður litsterkur – því við sáum hvernig sérhver þráður skiptir máli fyrir okkar daglega líf. 

Þessir þræðir: Velferðarkerfi sem virkar. Atvinnuleysistryggingasjóður sem bregst við þegar fólk missir vinnuna. Heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum. Skólar sem kappkosta að taka utan um börnin okkar og unga fólkið, veita þeim menntun og stuðning þegar á bjátar. Atvinnulífið, fyrirtækin í landinu, stór og smá þar sem fólk lagði nótt við nýtan dag til að bregðast við veirunni.

Þessir þræðir og margir aðrir eru ómissandi byggingarefni hins góða samfélags. Sumir þræðir eru áþreifanlegir eins og brýr, vegir, flugvellir, raforkulínur og fjarskiptamöstur; aðrir eru óáþreifanlegir. En þeir skipta allir máli, stórir og smáir, og saman mynda þeir eina órofa heild, vefnað sem skiptir okkur máli hvert og eitt –  hann er okkar sameign. 

Stundum kann það að vera freistandi að dvelja aðeins í eigin tilveru og leggja eingöngu mat á heiminn út frá eigin forsendum. En þegar á reynir – þegar eitthvað kemur upp á – þá viljum við finna að við búum í samfélagi þar sem við stöndum saman. Þannig samfélag viljum við. Þannig þjóð erum við; sjálfstæð þjóð sem stendur saman og vinnur með öðrum í samfélagi þjóðanna að skýrum markmiðum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, velmegun og umhverfisvernd. 

Undanfarnir fimmtán mánuðir hafa verið erfiðir. En þeir hafa líka verið lærdómsríkir – einmitt vegna þess að þeir hafa minnt á að samfélag er ekki aðeins orð heldur okkar aðferð við að vera til ásamt öðrum. Hvernig við náum árangri þegar við stöndum saman og hver og einn leggur sitt af mörkum. Hver hefði trúað því að fimmtán mánuðum eftir að sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hófust yrðu þrír fjórðu 16 ára og eldri komnir með fyrsta skammt bóluefnis? Þetta er sigur þekkingarleitar, verkvits og samstöðu. 

Framundan eru ekki síður krefjandi tímar. Tímar sem krefjast þess að við svörum skýrt spurningunum um hvernig samfélag við viljum móta í framtíðinni og hvað við viljum gera til að svo megi verða.

Hvers konar Ísland viljum við byggja upp að loknum faraldri? Land þar sem tekið er tillit til annarra. Land þar sem fólk getur breytt draum í veruleika og skapað sér tækifæri. Land þar sem fólk getur leitað hamingjunnar. 

Eftir erfiða tíma koma oft framfaraskeið og við eigum nú tækifæri til að hefja slíkt skeið. Ég finn að það er hugur í þjóðinni sem fagnar nú árangri í heimsfaraldri og hvert og eitt okkar upplifir sterkt hvers virði handabandið er – faðmlagið – hvers virði mannleg samskipti og samstaða eru í stóra samhenginu. 

Nú er framundan tími viðspyrnu þar sem við munum takast á við stórar áskoranir og byggja upp Ísland. Við þurfum að halda áfram að takast á við loftslagsvána, rétt eins og við tókumst á við faraldurinn; saman, á grundvelli rannsókna og gagna og með sem bestum upplýsingum til allra þannig að við getum lagt okkar af mörkum til að ná árangri í þeirri baráttu. Íslenskt atvinnulíf sýndi frumkvæði og hugvit í faraldrinum og þarf að beita sér með sama hætti fyrir grænum lausnum sem hjálpa okkur í stærsta verkefninu; að skila jörðinni heilli til komandi kynslóða.

Saman erum við komin með veganesti til að mæta annarri áskorun sem er tæknibyltingin. Í faraldrinum rann upp fyrir mörgum ljós að tæknin getur sannarlega einfaldað líf okkar margra, til dæmis til að vinna ýmis störf hvaðanæva á landinu. Þannig getur tæknin haft jákvæðar breytingar og dregið úr vinnuálagi svo fremi sem við höfum skýr leiðarljós: Að tryggja jöfnuð og réttlæti – og stöndum vörð um mennskuna í þessum breytingum.

Saman munum við byggja upp fjölbreytt íslenskt atvinnulíf. Við stöndum á sterkum grunni sjálfbærrar auðlindanýtingar og eigum mikil sóknarfæri í ýmsum greinum, ekki síst matvælaframleiðslu. Rannsóknir, þróun og nýsköpun í öllum greinum munu gegna lykilhlutverki í samfélagi framtíðarinnar en ekki síður menning og listir, hinar skapandi greinar. Ekki eingöngu vegna hinna hagrænu áhrifa sem þó eru mikil – heldur vegna þess að menning og listir skapa samfélag. Ómissandi þráður í samfélagsvefnum sem sýnir okkur best hver við erum – og tengir saman ólíkt fólk og ólíka hópa. Menning og listir stækka okkur, þær gera okkur mennskari, færari um að skilja okkur sjálf og aðra. Þegar talað er um innviði eigum við ekki síður við menningu en vegi og brýr – listirnar sem brúa hið óáþreifanlega bil milli manna með því að fást við hið sammannlega. Menning og listir gera okkur kleift að lifa saman í samfélagi þó að við séum öll ólík og einstök.

Saman eigum við að byggja upp Ísland þar sem fólk getur lifað með reisn alla ævi. Þjóðin er að eldast og það er ólíkt að vera fimmtugur nú en fyrir fimmtíu árum. Tækifærið til að vinna lengur en tíðkast hefur þarf að vera fyrir hendi en það getur reynst erfitt í sumum störfum. Sveigjanleiki mun skipta miklu í þeim efnum. Við þurfum að takast á við þetta verkefni, tryggja um leið framfærslu fólks alla ævi og fjölbreytt tækifæri fyrir þau sem hafa látið af störfum. Þráður kynslóðanna má ekki rofna í samfélagsvefnaðinum.

Kæru landsmenn.

Umræða stjórnmálanna snýst sjaldnast um hinar stóru framtíðaráskoranir. Glíman við þær mun hins vegar ákveða velsæld okkar sem hér búum til framtíðar. Þessar áskoranir geta orðið til þess að skapa aukinn ójöfnuð og þar með ógnað okkar sameiginlegu velsæld. Réttlát umskipti verða lykilorðin til að tryggja að svo verði ekki og Ísland verði áfram samfélag þar sem hver þráður styður við annan, þar sem er rými fyrir fjölbreytni, þar sem við erum sammála um að fólk geti notið sín, átt gott líf og skapað sér tækifæri til framtíðar.

Kæru landsmenn

Það einkennir oft eyjaskeggja að þeim finnst þeir vera nafli alheimsins. Kannski vegna þess að við erum umkringd sjó og berum okkur sjálfkrafa saman við önnur lönd handan við hafið. Og reyndar, ef vel er að gáð, er svo margt sem hefur gerst í veraldarsögunni sem hefur líka gerst á Íslandi – þó aðeins smærra sé í sniðum. Ísland er eins og heimsþorp á nyrsta hjara, um land allt má finna fólk frá öllum heimshornum sem hefur komið og ílengst á Íslandi. Sem vinnur ótrúlegustu störf og sinnir fjölbreyttum samfélagsskyldum. Það fléttar sína þræði saman við innlendan vefnað þannig að úr verður enn fegurri mynd. Og vefnaður með margs konar þræði og ólík mynstur verður slitsterkari en sá sem er einsleitur og fábreyttur.

Kæru landsmenn.

Undanfarin misseri hef ég hugsað mikið til barna og ungmenna þessa lands. Þau munu seint gleyma þessum faraldri og ég vona að fyrir þau flest verði hann brátt aðeins minning um skrýtna tíma. En hann reyndi á margar fjölskyldur og rannsóknir hafa sýnt að hann reyndi sérstaklega á börn og ungmenni. Við sem störfum í stjórnmálum eigum að hafa framtíð landsins í huga við allar okkar ákvarðanir. Við hljótum að taka ítrekaðar vísbendingar um vanlíðan barna og ungmenna alvarlega. Undanfarin misseri hafa stór skref verið stigin til að bæta umgjörðina um málefni barna á öllum sviðum hins opinbera. En ekki nægir að bæta úr því hvernig við bregðumst við þegar eitthvað amar að – við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvernig við getum gert samfélagið okkar þannig að börnum og ungmennum líði betur. Samvera og samskipti skipta þar mestu, því hvort sem litið er til hamingjurannsókna Harvard-háskóla eða Hávamála þá er það svo að maður manns gaman. Samskipti við annað fólk gefa mest og hafa mest að segja um það hvort tilveran verður hamingjurík. 

Samfélag sem gefur fólki tíma og tækifæri til að eiga samskipti er líklegra til að tryggja velsæld fólksins í landinu og auka hamingju þess. Ísland hefur á þessu kjörtímabili tekið þátt í samstarfi nokkurra ríkja um velsældarhagkerfi. Það felur í sér að hagkerfið verður ekki eingöngu mælt með efnahagslegum mælikvörðum sem mæla einungis afmarkaðan hluta samfélagsins. Hlutverk stjórnmálanna er víðfeðmara en að það megi eingöngu snúast um þann hluta heldur er það skylda okkar að huga að hamingju og velsæld allra sem hér búa. Þess vegna skiptir máli að vinna út frá velsældarmarkmiðum um raunveruleg lífsgæði fólks – og gera það sem við getum til að skapa fólki samfélag þar sem það getur ræktað hamingjuna. Það gerum við með því að lengja fæðingarorlof, stytta vinnutíma, tryggja öfluga almannaþjónustu, skapa störf – og líka með því að vernda umhverfið og tryggja aðgang að ósnortinni náttúru og heilnæmu umhverfi. 

Kæru landsmenn.

Þjóðhátíðardagurinn minnir okkur á að við stöndum á herðum þeirra kynslóða sem á undan okkur fóru og höfðu trú á íslensku samfélagi. Við sem nú berum hinn íslenska fána þurfum að vera sívakandi við að leggja okkar af mörkum til að greiða götuna áfram til betra samfélags á Íslandi. Það eru okkar sameiginlega risavaxna verkefni. Því þótt við séum ólík, eigum ólíkar sögur og aðstæður þá erum við hluti af sömu heild, hluti af íslenskri þjóðarsögu, hluti af hinum íslenska samfélagsvefnaði. Á okkur hvílir skylda gagnvart þeim sem á undan gengu og gagnvart þeim sem á eftir okkur munu koma og undir þeirri skyldu og ábyrgð viljum við standa, hvert og eitt og saman sem þjóð. Þannig mun okkur áfram farnast vel.

Til hamingju með daginn, kæru landsmenn.

-KJ

Ljósmyndari: Sigurjón Ragnar

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search