PO
EN
Search
Close this search box.

Glórulaus matarsóun

Deildu 

Talið er að einn þriðji af þeim mat­væl­um sem fram­leidd eru í heim­in­um á hverju ári nýt­ist ekki til mann­eld­is. Það er geysi­legt magn. Þetta eru ekki nýj­ar frétt­ir en þrátt fyr­ir mikla umræðu um mat­ar­sóun á und­an­förn­um árum þok­umst við alltof hægt í rétta átt. Margt hef­ur verið reynt. Stjórn­völd, ein­stak­ling­ar og fé­laga­sam­tök hafa ráðist í ýmis verk­efni til þess að sporna gegn mat­ar­sóun. En því miður sjá­um við enn ekki nægi­lega mik­inn ár­ang­ur. Um­rædd verk­efni hafa helst miðað að því að reyna að ná fram hug­ar­fars­breyt­ingu en þau hafa ekki skilað okk­ur langt.

Aðgerðaáætl­un gegn mat­ar­sóun

Í lok síðasta kjör­tíma­bils lagði um­hverf­is- og auðlindaráðherra, Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fram fyrstu heild­stæðu aðgerðaáætl­un gegn mat­ar­sóun á Íslandi og þeim um­hverf­isáhrif­um sem af henni hljót­ast. Aðgerðaáætl­un­in sam­an­stend­ur af 24 aðgerðum sem snúa að allri virðiskeðju mat­væla, frá frum­fram­leiðslu til neyt­enda. Mark­mið þess­ara aðgerða er að minnka mat­ar­sóun í allri virðiskeðjunni um 30% fyr­ir árið 2030. Til þess að þetta tak­ist þarf sam­stillt átak sam­fé­lags­ins alls; at­vinnu­lífs, al­menn­ings og stjórn­valda. Aðgerðaáætl­un­in er á ábyrgð um­hverf­is-, orku, og lofts­lags­ráðuneyt­is­ins. Enda eru flest stjórn­tæk­in til að tak­ast á við mat­ar­sóun þar. En hluti af mat­ar­sóun verður við fram­leiðslu mat­væla. Íslend­ing­ar hafa þannig náð mikl­um ár­angri í að draga úr mat­ar­sóun með bættri nýt­ingu á sjáv­ar­af­urðum, en Íslend­ing­ar nýta stærri hluta t.d. hvers þorsks til verðmæta­sköp­un­ar en víðast ann­ars staðar.

Brauðfæða mætti tugi millj­óna jarðarbúa sem nú búa við mat­ar­skort með því að draga úr mat­ar­sóun. Koma má í veg fyr­ir mikla sóun á verðmæt­um. Við fram­leiðslu á mat­væl­um sem er hent þarf að nýta land, vatn, áburð og aðrar auðlind­ir jarðar. Allt eyk­ur þetta los­un á gróður­húsaloft­teg­und­um, til einskis. Það er auðvitað glóru­laust.

Mat­ar­sóun og fæðuör­yggi

Nátt­úru­ham­far­ir, stríð í Evr­ópu og heims­far­ald­ur hafa minnt okk­ur ræki­lega á mik­il­vægi þess að huga að fæðuör­yggi og það hafa stjórn­völd ein­mitt gert. Fyrstu viðbrögð eru að leita leiða til að auka fram­leiðslu hér á landi sem við get­um og eig­um að gera ásamt því að styðja bænd­ur vegna aðfanga­hækk­ana. Það er hins veg­ar ekki síður mik­il­vægt að sporna gegn því að sóa mat­væl­um sem þegar eru fram­leidd.

Kann­an­ir sýna að sjö af hverj­um tíu reyna að lág­marka mat­ar­sóun. En til að við náum raun­veru­leg­um ár­angri þurfa fyr­ir­tæki og stofn­an­ir að stíga inn í þessa bar­áttu af full­um þunga og fullri al­vöru. Við þurf­um hvata og við þurf­um leiðir til að mæla mat­ar­sóun. Fjöl­marg­ar leiðir eru lagðar til í aðgerðaráætl­un­inni sem ég hvet öll til að kynna sér. Við sem þjóð eig­um að krefjast ár­ang­urs þegar kem­ur að mat­ar­sóun.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search