Search
Close this search box.

Góð uppskera á þingvetrinum

Deildu 

Í ati hversdagsins, þar sem hraði samfélagsmiðlanna ræður för, hættir okkur oft til að gleyma því sem gert hefur verið. Þannig tekur eitt við af öðru, lifir í umræðunni stundarkorn og víkur svo fyrir því næsta.

Þingi var frestað í síðustu viku. Mesta athygli á liðnum þingvetri vakti málþóf Miðflokksins, eðlilega. Ýmislegt fleira gerðist þó á þessu þingi og þegar litið er yfir sviðið sést að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur komið ansi mörgum framfaramálum í gegnum þingið.

Frumvarp forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði er orðið að lögum. Þar er að finna umfangsmikla réttarbót sem löngu er orðin tímabær. Þá er einnig, að undirlagi heilbrigðisráðherra, búið að breyta löggjöf um þungunarrof og tryggja í sessi rétt kvenna yfir eigin líkama og einnig má nefna lög um ófrjósemis­aðgerðir sem tryggja sjálfsforræði í ákvörðunum um slíkar aðgerðir. Öll þessi mál eru mikil réttarbót.

Fljótlega eftir að ríkisstjórnin tók til starfa skipaði forsætisráðherra nefnd til að fara yfir umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Sú nefnd skilaði tillögum og í kjölfarið hafa verið gerðar löngu tímabærar breytingar á ýmsum lögum, t.d. um tjáningarfrelsi og aðgang að upplýsingum. Nú er svo komið að GRECO, nefnd Evrópuráðsins gegn spillingu, segir okkur á réttri leið með að styrkja stjórnkerfið til að draga úr hættu á spillingu.

Gerðar hafa verið breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum, lög um loftslagsmál styrkt, umferðarlög uppfærð og þjóðinni sett heilbrigðisstefna, í fyrsta skipti sem það er gert. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um fiskeldi sem treysta um­hverfisþætti betur í sessi og unnið verður að stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

Þetta er fráleitt tæmandi listi yfir þau góðu mál sem þingið afgreiddi á liðnum vetri. Í haust er svo von á fjölmörgum málum þar sem enn verður haldið áfram að bæta samfélagið, svo sem tengdum lífskjarasamningunum. Það skiptir nefnilega máli hver stjórnar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search