Search
Close this search box.

GOÐAFOSS FRIÐLÝSTUR

Deildu 

Ísland er ríkt af mikilfenglegum fossum. Goðafoss í Skjálfandafljóti er svo sannarlega einn þeirra. Hann er einn vatnsmesti foss landsins og ásýnd hans er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Í gær varð sá merkilegi áfangi í náttúruvernd á Íslandi að Goðafoss var friðlýstur sem náttúruvætti. Goðafoss er ein helsta náttúruperla landsins og einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum Norðurlands.  

Mikið náttúruverndargildi

Með friðlýsingunni er stuðlað að verndun fossins og næsta nágrennis. Meðal markmiða er að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn vegna fegurðar, sérkenna og útivistargildis svæðisins. Einnig er um að ræða sérstæðar náttúruminjar og breytileika í jarðmyndunum sem auka á verndargildið.

Landvarsla og innviðir

Ég man alltaf þegar ég kom fyrst að Goðafossi, sextán ára gamall menntaskólanemi. Mér fannst fossinn vægast sagt stórfenglegur. Síðan þá hefur ferðamönnum fjölgað gríðarlega og mikil uppbygging átt sér stað á svæðinu. Með friðlýsingunni verður tryggð landvarsla og þar með fræðsla og eftirlit á svæðinu og einnig þarf að ljúka þar uppbyggingu innviða. Friðlýsing svæða kemur á betra skipulagi sem gerir að verkum að hægt er að taka betur utan um verðmætin. Þannig tryggjum við að ekki sé á þau gengið á sama tíma og fólk fær notið þeirra, bæði núverandi og komandi kynslóðir.

Fossalandið Ísland

Mörg okkar eigum okkur uppáhaldsfoss, ýmist sem tengist barnæsku og uppeldisstöðvum eða sem við höfum hrifist af síðar á ævinni. Meðal vinsælustu ferðamannastaða landsins eru fossar. Gullfoss, Goðafoss, Seljalandsfoss, Skógarfoss, Hraunfossar, Hengifoss, Dettifoss og Dynjandi, svo einhverjir séu nefndir. Aðrir fossar verða sífellt vinsælli, til dæmis fossarnir á Ófeigsfjarðarheiði á Ströndum. Ísland er svo sannarlega land fossa og það er mikilvægt að við stöndum vörð um þau náttúruverðmæti sem felast í fossunum okkar. Það skapar líka atvinnutækifæri og auðlegð að vernda fossa.

Framsýni í Þingeyjarsveit

Friðlýsing Goðafoss er hluti af átaki í friðlýsingum sem ég hratt af stað árið 2018 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Átakið er unnið í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Friðlýsing Goðafoss er níunda friðlýsingin sem ég staðfesti. Ég vil þakka sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og landeigendum jarðanna Hriflu, Ljósavatns og Rauðár fyrir framsýnina með þessari friðlýsingu. Megi Goðafoss, Skjálfandafljót og Íslendingar allir njóta þessarar ákvörðunar um ókomna tíð.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search