Search
Close this search box.

Göngum til friðar

Deildu 

Senn líður að jólum og við undirbúum hátíð ljóss og friðar með fjölskyldum okkar og vinum. Við sjáum fram á náðuga daga með góðum mat, fallegum gjöfum og gefandi samverustundum. Ljós og skreytingar gleðja augað og óskir sumra um jólasnjó sem birtugjafa í svartasta skammdeginu rættust með hvelli.

Ekki sjá þó allir jarðarbúar fram á gleði- og friðarjól. Víða geisa átök. Hörmulegar fréttir berast daglega af árásarstríði Rússa í Úkraínu, þjáningum fólks vegna þess og ekki síður vegna kerfisbundinnar eyðileggingar á innviðum á borð við vatns- og raforkukerfi.

Sjaldnar berast fréttir frá öðrum átakasvæðum eins og Jemen, Sómalíu, Eþíópíu og Afganistan, þar sem hungursneyð eykur enn á hörmungar almennings. Enn er barist í Sýrlandi og Kúrdar og Palestínumenn heyja á hverjum degi baráttu fyrir tilverurétti sínum.

Því miður er þessi upptalning á ófriðarsvæðum og hörmungum ekki tæmandi.

Þjóðir heims sóa svimandi fjárhæðum í vopn á ári hverju. Vopn þessi eru síðar notuð til að murka lífið úr saklausu fólki. Kjarnorkuveldin eyða ógnvænlegum upphæðum í að uppfæra kjarnorkuvopna­búr sín og sífellt oftar heyrist nefndur möguleikinn á að beita slíkum vopnum í hernaði.

Á sama tíma hefur 91 ríki veraldar undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum, þar af hafa 68 fullgilt hann. Í þeim fríða flokki eru þó engin kjarnorkuveldi, ekkert NATO-ríki og ekki Ísland.

Frá árinu 1981 hafa íslenskir friðarsinnar komið saman á Þorláksmessu og krafist friðar í heiminum.

Ekkert fangar betur hinn sanna anda jólanna en að taka sér hvíld frá amstri og jólaundirbúningi og ganga saman fyrir kröfunni um frið. Sjáumst skammt fyrir neðan Hlemm klukkan 18 á Þorláksmessu, göngum saman niður Laugaveg á Austurvöll og hlustum á friðarhugvekju.

Steinunn Þóra Árnadóttir, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search