EN
PO
Search
Close this search box.

Græn endurreisn

Deildu 

Eins og við höfum rækilega verið minnt á þá eru stjórnvöld víðast hvar í heiminum fljót að skella í lás þegar áföll ganga yfir og sum hver banna nú m.a. útflutning á heilbrigðisbúnaði til þess að tryggja sig fyrst. Stjórnvöld gera allt  til að verja þegna síns lands. Varabirgðir Finna eru gott dæmi, en þeir hafa lengi átt töluvert magn hjúkrunarbúnaðar í öryggisskyni. Hér á landi voru til vandaðar og margæfðar viðbragðsáætlanir við heimsfaraldri inflúensu þökk sé framsýnum sóttvarnaryfirvöldum.

Fæðuöryggi er eitt af því fyrsta sem fólk hefur áhyggjur af þegar neyðarástand skapast. Hvaða ráðstafana hefði verið gripið til ef um hefði verið að ræða illvígan bráðsmitandi plöntu- eða dýrasjúkdóm? Slíkir sjúkdómar hafa nú þegar valdið miklum usla og því er spáð að ýmiskonar sjúkdómar verði algengari á komandi árum og áratugum vegna hlýnunar loftslags.

Nýsköpun lykilatriði

Íslensk landbúnaðarframleiðsla er, líkt og stærstur hluti allrar landbúnaðarframleiðslu í heiminum, háð margvíslegum innfluttum aðföngum s.s. olíu, fóðri, áburði og tækjum. Því meira sem hægt er að draga úr þörf fyrir þessi aðföng því öruggari erum við fyrir ytri áföllum. Nú stöndum við frammi fyrir því að reyna að gera okkur grein fyrir því hvernig samfélagið okkar verður að faraldrinum loknum. Þá er vert að skoða betur landbúnaðarframleiðslu okkar m.t.t. fæðuöryggis þjóðarinnar og hvernig stuðningi við landbúnaðinn er háttað. Til dæmis þarf að athuga hvar  göt eru  í núverandi kerfi – göt sem stoppa þarf í til að allar greinar njóti sannmælis. Jafnframt þarf að endurmeta hvort ekki sé, út frá þjóðhagslegu tilliti, skynsamlegt að auka enn frekar stuðning við innlenda matvælaframleiðslu. Þannig getum við aukið fæðuöryggi landsins en jafnframt stutt við aðlögun búskaparhátta að kolefnishlutleysi. Bændur hafa ítrekað lýst yfir vilja sínum til þess að gera landbúnað loftslagsvænni og því þarf að aðlaga stuðningskerfin að þeim markmiðum.

Ríkisstjórnin ákvað, sem hluta af viðbrögðum sínum við efnahagslegum áhrifum af Covid-19, að flýta stofnun Matvælasjóðs og leggja honum til 500 millj. króna aukalega. Þar með væri kominn mjög öflugur 800 millj. króna sjóður til stuðnings innlendri matvælaframleiðslu. Mörg spennandi nýsköpunarverkefni ættu að geta fengið fjármagn úr sjóðnum. Verkefni sem munu draga úr þörfinni á innflutningi t.d. á áburði, úrvinnsla olíu úr repju, vinnsla próteins til manneldis úr grasi, nýjar plöntutegundir sem vaxið geta hér á landi o.fl. Einnig var ákveðið að bæta verulega í stuðning við grænmetisframleiðsluna í landinu með varanlegu 200 millj. króna framlagi. Þeir fjármunir munu væntanlega auka enn frekar framboð á innlendu grænmeti þegar líður á árið.

Vanmetum ekki náttúruna

Þegar rykið sest munum við þurfa að leggjast yfir hvaða viðbúnað við þurfum að viðhafa m.t.t. atburða á borð við Covid-19. Huga verður að því hvernig við högum smitvörnum innanlands varðandi búfjársjúkdóma, hvaða birgðir þurfa ætíð að vera til og í hve miklu magni svo dæmi séu tekin.

Sennilega er mikilvægasti lærdómurinn sem við eigum að draga af þessum hamförum að vanmeta ekki náttúruna og halda að við getum stjórnað henni. Þetta þekkja bændur sem við hana glíma alla daga. Stærsta áskorun næstu áratuga er að koma í veg fyrir hamfarir vegna loftslagsbreytinga. Með skynsamlegum ráðstöfunum má auka fæðuöryggi þjóðarinnar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að styðja við innlenda matvælaframleiðslu. Það er hagkvæmt og nauðsynlegt því við tryggjum ekki eftir á.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er þingflokksformaður Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search