Search
Close this search box.

Græn hagstjórn fyrir fyrirtækin og heimilin í  landinu

Deildu 

Í framhaldi af skrifum okkar um græna orðanotkun og græna hvata í Heimildinni 11. apríl sl. „Græn hagstjórn lykill að réttlátum umskiptumer mikilvægt að horfa til fyrirtækja og þess sem þau geta gert eða eiga að gera til að leggja sitt að mörkum í átt að sjálfbæru Íslandi. Mörg þeirra stærri hafa tekið fyrstu skrefin. Bæði opinberar stofnandi eins Landspítalinn, fyrirtæki eins og ÁTVR, sem og fyrirtæki úr einkageiranum Krónan og Íslandshótel. Í daglegu amstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja er oft ekki í forgangi að gera stefnur um sjálfbærni. Sérlega hvata þarf fyrir þessi fyrirtæki og til fyrirmyndar væri að bjóða upp á aðstoð við að setja upp slíkar stefnur og skoða ársreikninga með formerkjum umhverfisvænni lausna.

Heildstæð aðgerðaráætlun eins og stefna VG segir til um er varðar innleiðingu hringrásarkerfisins ætti að mynda vef innan fyrirtækja í öllum kimum þjóðfélagsins. Hvatakerfi fyrir öll skiptir máli, til dæmis hvers konar einyrkja, hönnuði, lítil framleiðslufyrirtæki, iðnaðarmenn og verktaka. Sérstaklega þarf að styðja við frumkvöðla og ætti öll nýsköpun að byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Hver aðgerð hefur áhrif og er mikilvægt skref í yfirfærslu til hringrásar og endurspeglast í atvinnulífinu öllu. 

Mjög dýrmætt er þegar heil atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn getur sýnt fram á heildarsamdrátt í losun, slíkt er vonandi bæði hvatning til áframhaldandi góðra verka sem og hvetjandi fyrir aðrar atvinnugreinar. Öll fyrirtæki finna eða ættu að finna að skref í átt að umhverfisvænum lausnum skipta máli hvað varðar afkomu þeirra sem er ein undirstaða sjálfbærni og til hagsbóta fyrir okkur öll.

Stjórnvöld ættu að byggja efnahagsstjórn á fjölbreyttari sjónarmiðum en áður hefur verið gert og leggja grunn að skilvirku, réttlátu og grænu skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði. Samhliða ætti, með grænum hvötum,  að auka verðmæta- og nýsköpun á öllum sviðum til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og tryggja að íslenskt samfélag og atvinnulíf sé sem best í stakk búið til að takast á við áskoranir tæknivæðingar, loftslagsbreytinga og annarra fyrirsjáanlegra samfélagsbreytinga.

Einnig þurfa að vera hvatar sem skila sér beint til neytenda þar sem sýnt væri fram á umhverfisvænt heimilislíf. Tryggingar á húsnæði sem uppfylla umhverfisstaðla ættu að vera lægri, iðgjöld á bílum í hlutfalli við kolefnisspor þeirra og matvörur verðlagðar í takt við vistspor eða vegabréf vörunnar. Vinstrihreyfingin grænt framboð er hreyfing sem er reiðubúin að vísa veginn og hefur kjark til að setja notkun grænna hvata á dagskrá og leiða okkur í átt að sjálfbæru Íslandi.

_______________________

Hólmfríður Sigþórsdóttir er umhverfis- og auðlindafræðingur, líffræðikennari og flokkráðsfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, menntunarfræðingur, stjórnarkona Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og oddviti hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search