Search
Close this search box.

Græn hagstjórn – lykill að réttlátum umskiptum

Deildu 

Réttlát umskipti (e. Just transition) eru mikilvæg þegar stefnt er að kolefnishlutleysi sem er aðkallandi samfélags-, umhverfis- og efnahagsmál. Græn hagstjórn, grænir hvatar, græn viðskiptalíkön, græn endurreisn, grænar fjárfestingar, græn réttlát umskipti bergmálar ef til vill sem innantóm orð. Þessum græna orðaflaumi ber þó að fagna og megi sem flest tileinka sér hugmyndafræði sem byggir á sem grænastri orðanotkun. Orðin ein eru þó langt í frá nóg, það er hverju samfélagið mikilvægt að tileinka sér áætlunargerð og verklag með umhverfisáherslur að leiðarljósi. Huga að grænum og um leið sjálfbærum leiðum við allar skuldbindingar. Græn hagstjórn leggur áherslu á hagræna hvata sem þrýstiafl til að hvetja til hegðunar sem er bæði nauðsynleg fyrir einstaklinga og okkur sem heild í til að standa við skuldbindingar á alþjóðasviðinu er varða umhverfismál. Undir hatti sjálfbærni þarf að hlúa að efnahag og samfélagi á sama tíma og umhverfinu, þættirnir þurfa að dansa saman innan skörunarmengisins til að hægt sér að tala um sjálfbærni. Mikilvægt er að samræma allar aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með það markmið að tryggja félagslegt réttlæti og góð lífskjör fyrir fólkið í landinu en um leið draga úr kostnaði, neyslu og sóun.

Réttlát umskipti er einn þeirra þátta sem tengir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hvert við annað. Á leiðinni frá heimsfaraldri til grænnar endurreisnar þarf að setja langtímamarkmið þar sem réttlát umskipti eru í fyrirrúmi, þau eru heillavænlegust fyrir okkur öll þegar upp er staðið. Tryggja þarf slík umskipti án þess að vagga stoðum sjálfbærni. Það hefur meðal annars verið gert með því að setja lög um hringrásarhagkerfi. Þá hefur ríkisstjórn Íslands sett sér aðgerðaáætlun í loftlagsmálum, safn 50 aðgerða sem flestar eru komnar í vinnslu og margar vel á veg. Mikilvægt er að hafa ávallt alla hópa samfélagsins í huga þegar ráðist er í slíkar aðgerðir á landsvísu og gæta að samráði og upplýsingagjöf. Í stefnu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um Loftslagsvá og náttúru segir „Allar loftslagsaðgerðir þarf að rýna með tilliti til félagslegs réttlætis svo tryggja megi réttlát umskipti og að aðgerðir bitni ekki á efnaminna fólki.“ Þetta felur í sér tryggja þarf að umhverfisvænir valkostir séu á samkeppnishæfu verði og þar með raunverulegur valkostur fyrir öll óháð greiðslugetu. Vitund og umfjöllun um umhverfismál eykur auk þess greiðsluvilja (e. Willingness to pay) þeirra sem hafa kost á því að velja umhverfisvænni valkosti.

Breytingastjórnun er stöðugt viðfangsefni í leiðandi fyrirtækjum og grænir hvatar ættu að beina stórum og smáum fyrirtækjum í að byggja á sjálfbærum viðskipalíkönum. Með grænum hvötum í formi skattaafsláttar til fyrirtækja sem sýna fram á sjálfbær viðskiptalíkön og starfsemi í viðeigandi skýrslum auka fyrirtæki hagnað sinn. Grænt gildismat leiðtoga hvort heldur sem er í atvinnulífi eða í stjórnmálum ýta undir að við náum að gera betur, meira en nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir sektir og lágmörk sem alþjóðasamfélagið setur okkur. Meira og betra vegna þess að við viljum vera leiðandi, okkar dropar hola steininn, skipta máli og lágmarka vonandi áhrif hamfarahlýnunar á auðlindir okkar og lífsgæði. Þess vegna er það sem er grænt, grænt, grænt sannarlega Vinstri grænt og valkostur fyrir öll sem trúa á að græn hagstjórn leiðir okkur í átt að sjálfbæru Íslandi.

_______________________

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir er menntunarfræðingur, oddviti VG í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni grænu framboði

Hólmfríður Sigþórsdóttir er umhverfis- og auðlindarfræðingur, líffræðikennari
og flokkráðsfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search