Search
Close this search box.

Græn hugsun í matvælaráðuneytinu

Deildu 

Í síðustu viku gaf Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, út skýrslu um loftslagsbreytingar. Niðurstöður skýrslunnar eru að athafnir af manna völdum hafi nú þegar leitt til hlýnunar loftslags um 1,1 gráðu frá iðnbyltingu og að allar líkur séu á því að farið verði fram úr markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5 gráðu hlýnun innan áratugs. Loftslagsbreytingar hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðarinnar. Að mínu mati er einna alvarlegast að jarðarbúar sem verða verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga eru þau sem hafa átt minnstan þátt í því að valda þeim.

Við getum ekki litið framhjá þessum staðreyndum og verðum að hafa það hugfast hvernig við getum lágmarkað skaðlegar afleiðingar athafna okkar. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki í þessu verkefni og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur ríka áherslu á baráttuna við loftslagsbreytingar. Í stjórnarsáttmálanum segir til dæmis að ríkisstjórnin muni leggja áherslu á markvissar aðgerðir til að draga úr losun og hraða orkuskiptum.

Undir matvælaráðuneytið heyra atvinnugreinar sem gegna lykilhlutverki í matvælaframleiðslu landsins. Loftslags- og umhverfismál eru grunnur allrar ákvarðanatöku í ráðuneytinu og forsenda þess að við náum raunverulegum árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar. Við þurfum í meira mæli að horfa til kolefnisspors fæðu og líta til fæðu úr plönturíkinu, draga úr losun í landbúnaði og hraða orkuskiptum í sjávarútvegi, svo nokkur dæmi séu nefnd. Ég er meðvituð um að þessi verkefni eru ekki alltaf auðveld en með því að taka markviss skref í rétta átt færumst við smám saman nær markmiðum okkar.

Losun frá landbúnaði er veruleg á heimsvísu og í íslensku samhengi. Bændur hafa nú þegar sýnt fram á að það er hægt að ná miklum árangri í því að binda kolefni og draga úr losun, til dæmis með því að endurheimta votlendi, græða land og rækta skóga, en áskorunin er að enn fleiri bændur taki þátt í slíkum verkefnum. Að mínu mati er ein leið til þess að ná því markmiði að tryggja að stuðningur við landbúnaðinn feli í sér hvata til að ná árangri í loftslagsmálum.

Nú þegar hefur verið dregið verulega úr notkun á olíu í sjávarútvegi vegna hagræðingar við veiðar og vinnslu, en raunverulegur árangur næst ekki nema flotinn skipti alfarið út jarðefnaeldsneyti og fiskimjölsverksmiðjur hafa nægan aðgang að rafmagni. Það er stórt verkefni en ég finn sívaxandi metnað hjá sjávarútveginum til að stíga stærri skref í átt til orkuskipta.

Verkefnið er stórt og áskoranirnar eru margar, en það er ekki óyfirstíganlegt. Með því að samþætta loftslagsmálin inn í alla vinnu stjórnvalda getum við náð raunverulegum árangri. Það hef ég gert í matvælaráðuneytinu og mun halda því áfram.

Birtist í Morgunblaðinu 28. mars.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search