Loftlagsmálin og umhverfismálin hafa skipað æ mikilvægari sess í stjórnmálum víða um heim, enda um alþjóðlegt verkefni að ræða þegar kemur að því að sporna við hröðum loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Alþjóðasamstarf, þ.m.t. þróunarsamvinna, gegnir enda algjöru lykilhlutverki í umhverfismálum. Þess vegna hef ég lagt fram þingsályktunartillögu um nýja, græna utanríkisstefnu Íslands sem 5 þingmenn utanríkismálanefndar úr 5 þingflokkum eru meðflutningsmenn á. Í tillögunni er aukin áhersla lögð á aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og á málflutning á því sviði á alþjóðavísu auk þess sem grænar áherslur verði lagðar til grundvallar í ólíkum þáttum utanríkisstefnunnar.
Hver er þörfin á grænni utanríkisstefnu ?
Það er ljóst að grípa þarf til róttækra kerfisbreytinga til þess að vinna gegn enn verri afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum eins og hlýnun jarðar, öfgum í veðurfari, neikvæðum áhrifum á gróðurfar og lífríki, súrnun sjávar og hækkandi sjávarstöðu. Til þess þarf að rýna öll okkar kerfi út frá aðgerðum gegn hlýnun loftlags.
Umhverfismálin teygja anga sína víða, enda tengjast þau beint og óbeint fjölbreyttum samfélagslegum málefnum á borð við alþjóðasamvinnu, öryggismál og stríðsátök, efnahag og alþjóðaviðskipti, samgöngur, fólksflutninga, jöfnuð og kynjajafnrétti. Loftslagsbreytingar eru líka orðin ein helsta ógn við mannréttindi í heiminum líkt og mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Michelle Bachelet, hefur lýst yfir. Það er mat Sameinuðu þjóðanna að um 40% borgarastyrjalda í heiminum síðustu sextíu árin megi rekja til hnignunar umhverfis (e. environmental degradation). AUGLÝSING
Í ljósi umfangs og mikilvægi umhverfismála á alþjóðavísu er brýn nauðsyn á styrku alþjóðasamstarfi og alþjóðasamvinnu í loftslagsmálum, sem bara á eftir að aukast. Þess vegna þarf öll stefnumörkun á vegum íslenska ríkisins að bera þess merki og þar er utanríkisstefna Íslands ekki undanþegin. Einn veigamesti þátturinn í utanríkisstefnu Íslands á að vera sá að stuðla að því að setja umhverfismál í forgang. Í því samhengi getur Ísland leikið mikilvægt hlutverk því þrátt fyrir smæðina getur Ísland haft mjög jákvæð áhrif á þróun mála á alþjóðavettvangi, eins og sannaðist til að mynda með eftirtektarverðri framgöngu okkar í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
Alþjóðleg miðlun á jarðvarmatækni og eftirspurn eftir grænum lausnum
Aukin áhersla á græn málefni í utanríkisstefnu Íslands hefði jákvæð áhrif og gæti til að mynda orðið til enn frekari miðlunar á þekkingu sem er til staðar hérlendis á notkun jarðvarma. Sú þekking getur skipt sköpum fyrir möguleika annarra þjóða til að axla ábyrgð á orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti og kolum yfir í umhverfisvænni valkosti eins og jarðvarma. Og sömuleiðis mætti ætla að eftirspurn eftir grænum lausnum víða um heim hvetti til enn frekari nýsköpunar á sviði grænna lausna hérlendis með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á umhverfi, efnahag og samfélag. Slíkt væri í anda alþjóðaskuldbindinga Íslands samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Parísarsamkomulaginu.
Græn utanríkisstefna að norrænni fyrirmynd
Norðurlöndin hafa gert sig mjög gildandi á alþjóðavettvangi í umhverfis- og loftslagsmálum í sínum utanríkisstefnum og í þingsályktuninni er gert ráð fyrir því að litið verði til Norðurlandanna og utanríkisstefnu þeirra við útfærslu á grænni utanríkisstefnu. T.d. kynnti danska utanríkisráðuneytið verkefni til þess að koma á framfæri dönskum lausnum í loftslagsmálum og aðgerðum til að auka sjálfbærni undir lok síðasta árs. Auk þess hyggst ríkisstjórn Danmerkur leggja áherslu á græn verkefni í þróunarsamvinnu líkt og fram kom í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar landsins fyrir árið 2020 þar sem veittar voru um 600 milljónir danskra króna til málaflokksins. Í þróunarsamvinnustefnu sænskra yfirvalda er m.a. lögð áhersla á umhverfislega sjálfbærni; sjálfbærni loftslags, sjávar og vatnsbóla og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og stór hluti þróunarsamvinnustefnu Finnlands er tileinkaður loftslagsmálum í þróunarríkjum, bæði í gegnum sjóði sem og tvíhliða þróunarsamvinnuverkefni.
Sex aðgerðir grænnar utanríkisstefnu
Við mótun grænnar utanríkisstefnu Íslands yrði ráðist í sex aðgerðir sem eru byggðar á aðgerðum og áherslum Norðurlandanna í þessum málaflokki. Þær yrðu eftirfarandi;
- Skipaður verði sendiherra loftslagsmála sem samhæfi stefnu og skilaboð Íslands erlendis um loftslagsmál, hafi yfirumsjón með upplýsingagjöf og samhæfingarhlutverk innan stjórnarráðsins um framkvæmd íslenskra stjórnvalda á aðgerðum gegn loftslagsbreytingum á alþjóðavettvangi.
- Sérstök sendiráð Íslands verði útnefnd græn sendiráð þar sem megináherslur og verkefni viðkomandi sendiherra og sendiráða verði á sviði loftslags- og umhverfismála.
- Stofnuð verði sérstök umhverfis- og loftslagsskrifstofa í utanríkisráðuneytinu og henni tryggður mannafli og fjármunir. Skrifstofunni verði falið að efla alþjóðlega samvinnu um loftslagsmál ásamt upplýsingagjöf, bæði á alþjóðavettvangi sem og innan lands, um loftslagsmál og starfa með öðrum ráðuneytum að framkvæmd alþjóðlegra aðgerða Íslands í loftslagsmálum.
- Stefna um græna fríverslun og alþjóðaviðskipti verði mörkuð og skýrð og ávallt hugsuð og unnin út frá loftslagsmarkmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum í umhverfis- og loftslagsmálum. Meiri áhersla verði lögð á umhverfismál við gerð fríverslunarsamninga.
- Stefna Íslands í þróunarsamvinnu verði skipulögð og skýrð út frá loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sem hluti af aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Fjárframlög til Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna verði aukin og alþjóðleg og tvíhliða samvinna verði efld innan græna hagkerfisins með aðstoð eða aðkomu utanríkisráðuneytisins.
- Stefna í einstökum þáttum alþjóðastarfs, á borð við norðurslóðastefnu Íslands og stefnu í málefnum hafsins, verði reglubundið uppfærð með tilliti til alvarlegrar stöðu í loftslagsmálum sem bregðast þarf hratt við.
Aðgerðir til að sporna við hröðum loftslagsbreytingum verða að vera skýrar, afdráttarlausar og markvissar og því þurfum við að fara í stefnumótun á öllum sviðum samfélagsins. Alþjóðasamvinna og utanríkisstefna getur leikið þar lykilhlutverk.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir er varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Vinstri grænna.