PO
EN

Grænir skattar eru loftslagsmál

Deildu 

Til að takast á við hamfarahlýnun þurfum við margs konar lausnir. Ein þeirra er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að koma á fót grænum sköttum sem hvetja til umhverfisvænni ákvarðana. Þetta er mikilvæg loftslagsaðgerð sem markar vatnaskil.

Urðunarskattur dregur úr losun

Það að urða úrgang er versti kosturinn í úrgangsmálum fyrir loftslagið. Best er að draga úr neyslu, þá að nota hlutina aftur (t.d. gera við þá eða kaupa notaða hluti) og því næst að endurvinna úrganginn (breyta t.d. plasti aftur í plast). Þar á eftir kemur endurnýting (m.a. að breyta úrganginum í orku) og allra sísti kosturinn er síðan urðun. Þegar úrgangur er urðaður myndast gróðurhúsalofttegundir og raunar er slík losun alls um 7% af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Með því að skattleggja urðun, líkt og nú verður gert, myndast hvati til að nota hluti aftur og endurvinna. Það skiptir miklu. Minna er urðað og þá dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.  

Hingað til hefur verið alltof ódýrt að losa sig við óflokkaðan úrgang og hvatinn til að koma í veg fyrir urðun ekki verið til staðar en þetta mun nú breytast.

Skattur á F-gös skiptir máli

Önnur mikilvæg loftslagsaðgerð felst í að skattleggja sérstaklega svokölluð F-gös: Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem m.a. eru notaðar sem kælimiðlar í kælikerfi í iðnaði. Flúorgösin eru manngerð og valda gróðurhúsaáhrifum. Losunin vegna þeirra er einnig um 7% af þeirri losun sem við þurfum að standa skil á gagnvart Parísarsamningnum. Til eru aðrar lausnir en umræddir kælimiðlar. Með grænum skatti á flúorgös drögum við úr notkun efna sem eru slæm fyrir loftslagið og hröðum nauðsynlegri útfösun þeirra hér á landi. Nákvæm útfærsla beggja skattanna er nú fram undan en báðir eru þeir þýðingarmiklir fyrir loftslagið og hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
umhverfis- og auðlindaráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search