Stóra verkefni okkar tíma er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og laga samfélagið að loftslagsbreytingum. Það verður ekki leyst með orðunum einum saman. Heldur með aðgerðum og fjárfestingum. Þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir. Árið 2030 nálgast og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að standa skil á verulegum samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda.
Frá því að ég mælti fyrir fyrsta frumvarpi til laga um loftslag árið 2012 hefur margt gerst. Loftslagsmál hafa færst ofar í stjórnkerfinu og nú er það svo að við hverja ákvörðun þarf að spyrja sig hvort hún muni auka eða draga úr losun Íslands. Undir mitt ráðuneyti heyra stórir og mikilvægir atvinnugeirar, landbúnaður og sjávarútvegur. Þeir eru mikilvægir, bæði hvað varðar efnahagslega hagsmuni Íslands en einnig varðandi loftslagsmál. Fáar greinar hafa sömu möguleika til þess að auka bindingu eins og landbúnaðurinn en í jarðvegi og trjám er hægt að binda mikið kolefni og koma í veg fyrir mikla losun.
Draga þarf hratt úr losun frá landbúnaði og sjávarútvegi
Losun frá þessum geirum hefur farið minnkandi síðustu 30 ár, þrátt fyrir aukna framleiðslu í landbúnaði. Sjávarútvegurinn hefur dregið verulega úr notkun á olíu vegna hagræðingar við veiðar. En þetta er ekki nóg. Meira þarf til. Stjórnvöld taka ekki ákvarðanir fyrir bændur eða útgerðarmenn. Stjórnvöld marka stefnuna og geta sett hvata til árangurs. Þannig þarf, við endurskoðun búvörusamninga, að gæta að því að samningarnir feli í sér hvata til árangurs í loftslagsmálum. Þar eru sóknarfæri. Gagnvart sjávarútveginum þarf að fara yfir regluverk, hvort óþarfa girðingar séu fyrir notkun á loftslagsvænum lausnum. Ég hyggst flytja mál sem fjarlægir eina slíka girðingu með haustinu, þannig að unnt verði að nota sparneytnari skip við veiðar.
Hvatarnir þurfa að virka
En umtalsverður árangur í sjávarútvegi næst ekki nema flotinn skipti út jarðefnaeldsneytinu. Tæknilega er það flókið en það þarf samt að gera kröfur um árangur. Hugsanlega þarf að gera það sama með skip og gert var með fólksbíla, þ.e.a.s. að setja í lög að óheimilt verði að stunda fiskveiðar við Ísland á skipum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eftir tiltekna dagsetningu. Þá er einnig hægt að ákveða að beita aðgengi að auðlindinni sem hvata. Nú þegar notar ríkið hluta af þeim 5,3% sem dregin eru frá heildarafla til þess að styrkja tilteknar gerðir veiðarfæra. Það má hugsa sér að nota sambærilega hvata til þess að hvetja til loftslagsvænni veiða. Hvaða leið sem farin verður þarf að virka því að tíminn er naumur.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.