PO
EN

Greiðum fyrir förgun mengandi bíla

Deildu 

Ísland er ásamt Noregi með rausnarlegasta ívilnunarkerfi í heimi fyrir öflun hrein­orkubíla. Með öflun er átt við kaup á nýju tæki. Um áramótin var kerfinu breytt þannig að raftengiltvinnbílar eru nú ekki lengur undanskildir hefðbundnum virðisaukaskatti. Rafhjól bættust einnig við og fá sambærilega meðferð, þ.e.a.s. niðurfellingu á VSK upp að ákveðnu kostnaðarþaki sem fer eftir gerð tækisins.

Milljarðar hafa verið felldir niður á þessum skattstofni til að hraða endurnýjun bílaflotans. Því miður er það ekki svo að þó hátekjuheimili fái sér Teslu, sem er mest seldi bíll landsins, þá sé honum skipt út fyrir annan bíl í bílaflota landsins. Þvert á móti eykst framboð á notuðum bílum sem menga og þar er einn helsti keppinautur virkra fararmáta og almenningssamganga; ódýrir notaðir bílar.

Ef við viljum sjá bílaflotann dragast saman og eknum kílómetrum á púströrstækjum fækka þarf annað kerfi. Á öðrum endanum, við öflun nýrra tækja, er sjálfsagt að draga hóflega úr kostnaði á hreinorkubílum til að gera þá meira aðlaðandi. En á hinum endanum ætti að vera sambærileg fjárhæð í boði, upp undir 700.000 krónur fyrir fólksbifreiðir sem hafa hæstu CO2 ígildin á hvern kílómetra, þar sem bifreiðum er annaðhvort fargað eða komið úr landi. Þessa fjárhæð ætti að vera hægt að nýta í öflun létts samgöngutækis ásamt því að veita aðgang að almenningssamgöngum.

Skilagjald á bifreið er í dag 20.000 krónur. Víðs vegar um borgina má hins vegar sjá bíla í lélegu ástandi, jafnvel bílhræ í eftirsóttum og/eða gjaldfríum bílastæðum. Samkvæmt forstjóra Skráningarstofunnar hf. er hlutfall bílaflotans sem trassar skoðunarskyldu um 6–13%. Létta má verulega á borgarlandi og eftirliti lögreglunnar ef skilagjald á bifreiðum hækkar með ofangreindum hætti með tilheyrandi fækkun í heildarfjölda bílaflotans.

Rafhjólin eru vinsæl

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru nýskráðir um 1.000 hreinir rafbílar og um 500 raftengiltvinnbílar til viðbótar. Á sama tímabili voru hins vegar 5.700 rafhlaupahjól flutt til landsins og um 2.000 rafhjól. Það eru því 5 létt raftæki flutt inn fyrir hvern skráðan hrein­orkubíl.

Það sem heldur aftur af notkun rafhjóla er skortur á öruggum geymslum og öflugra stíganet þar sem öllum vegfarendum líður vel og upplifa sig örugga. Sveitarfélög þurfa að sinna mokstri og viðhaldi stíga af sama metnaði og hefðbundnum mokstri og viðhaldi gatnakerfisins. Bifreiðir fá ótal bílastæði víðs vegar um borgina, á vinnustöðum og við verslanir. Á þessu sviði geta sveitarfélög, eigendur húsnæðis og verslunarfólk jafnað leikinn með tilliti til léttari farartækja með ýmiss konar hjólageymslum og bættu skipulagi.

Ef allir leggjast á eitt getum við staðist loftslagsskuldbindingar Íslands og slegið tvær flugur í einu höggi með ákjósanlegra borgarlífi. Að greiða fyrir förgun á mengandi bifreiðum er snjallt og rökrétt skref í þá átt.

Jökull Sólberg Auðunsson, er hópstjóri málefnahóps VG um nýsköpun.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search