Search
Close this search box.

Grenjandi minnihluti = mikill minnihluti

Deildu 

Eft­ir Stein­grím J. Sig­fús­son: „Þetta snýst um að leyfa okk­ur og kom­andi kyn­slóðum að eiga há­lendið áfram sam­an.“

Ekki stend­ur hug­ur minn til þess að hefja rit­deilu við Guðna Ágústs­son. Grein Guðna í Morg­un­blaðinu í dag, 16. des­em­ber, er svo mjög í hans upp­hafna al­hæf­inga­stíl að það fer að verða erfitt fyr­ir hann að toppa sig. Þó er það kannski ábyrgðar­hlut­ur að láta ómót­mælt slíku sam­safni af rök­leys­um og þvætt­ingi sem fram kem­ur í grein­inni þegar nafn manns kem­ur þar fyr­ir inn­an um í hrærigrautn­um.
Guðni hef­ur í skrif­um sín­um að und­an­förnu erfiðað nokkuð við að selja mönn­um þá kenn­ingu að hann sé sér­stak­ur vernd­ari bænda og land­búnaðar­ins. Eig­um við þá kannski að skoða við tæki­færi arf­leifð hans sem land­búnaðarráðherra og breyt­ing­ar á jarðalög­um í hans tíð? Nóg um það en víkj­um að því sem sann­leik­ans vegna verður að lág­marki að leiðrétta í grein Guðna.

  1. Örlítið um mál­notk­un. Sam­kvæmt mínu norðlenska tungu­taki eða mál­vit­und þýðir orðið grenj­andi minni­hluti = mik­ill minni­hluti. Sam­an­ber einnig grenj­andi stór­hríð eða grenj­andi rign­ing, sem sagt mikið af hvoru tveggja. Hef­ur ekk­ert með grát að gera og von­andi hef­ur Guðni ekki mis­skilið það.
  2. Ég var ekki að vísa til bænda, ekki úti­vist­ar­hópa, ekki nátt­úru­unn­enda, sem unna há­lend­inu eins og það er upp­lýs­ir Guðni, þegar ég talaði um hinn „grenj­andi“, sem sagt „mikla“, minni­hluta í minni ræðu. Það er Guðni sem í sinni dæma­lausu grein flyt­ur þessa aðila á einu bretti yfir í þann minni­hluta sem ég var að vísa til. Ég var að vísa til þeirra 10% þátt­tak­enda í skoðana­könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar 2018 sem lýstu sig and­víg eða mjög and­víg stofn­un þjóðgarðs á há­lend­inu. Í sömu könn­un lýstu um 63% sig hlynnt eða mjög hlynnt stofn­un slíks þjóðgarðs. Tíu pró­sent­in sem lýstu and­stöðu leyfði ég mér sem sagt að kalla ör­lít­inn eða mjög mik­inn („grenj­andi“) minni­hluta. Það er töl­fræðilegt mat en hef­ur ekk­ert með skoðana­frelsi eða virðingu fyr­ir ólík­um sjón­ar­miðum að gera.
  3. Það er þvætt­ing­ur sem hvergi á sér stoð í frum­varp­inu um há­lend­isþjóðgarð að, eins og Guðni orðar það, og koma nú bein­ar til­vitn­an­ir í grein hans; „taka eigi stjórn­ina af sveit­ar­fé­lög­un­um og bænd­um“, að „rík­is­stofn­un í Reykja­vík taki að sér af­rétt­ar­lönd­in, sekti og rukki alla unn­end­ur há­lend­is­ins, reki bænd­ur og sauðkind­ina til byggða“.

Hið rétta er að sveit­ar­fé­lög­un­um er tryggð mjög sterk, í raun ráðandi staða í stjórn­kerfi fyr­ir­hugaðs þjóðgarðs. Bænd­ur, þ.e. virk­ir bænd­ur í skiln­ingn­um nýt­end­ur auðlinda inn­an þjóðgarðsins, fá sína full­trúa við borðið. All­ar hefðbundn­ar nytj­ar, þar með talið upp­rekst­ur og beit, veiðar o.s.frv. halda sér inn­an þjóðgarðsins að því skil­yrði upp­fylltu að þær séu sjálf­bær­ar (sem þær auðvitað eiga þegar að vera sam­kvæmt ýms­um gild­andi lög­um og regl­um). Frum­varpið fær­ir heimaaðilum auk­in völd og áhrif úti á svæðum þjóðgarðsins frá því sem er í dag, stuðlar að at­vinnu­upp­bygg­ingu og skap­ar mik­il framtíðar­tæki­færi. Sam­an­ber mjög upp­lýs­andi og mál­efna­lega grein sem birt­ist fyr­ir til­vilj­un í sama tölu­blaði Morg­un­blaðsins eft­ir Evu Björk Harðardótt­ur odd­vita Skaft­ár­hrepps (Guðni óhepp­inn þar).

Eina já­kvæða sjón­ar­hornið sem mér dett­ur í hug á grein Guðna er að þetta sé órímuð öf­ug­mæla­vísa.

Ég þarf ekki leiðsögn frá Guðna Ágústs­syni um til­finn­ing­ar ís­lenskra bænda til lands­ins og há­lend­is­ins. Ég smala með þeim hvert haust og hef farið marg­ar ferðir ríðandi í hópi bænda um há­lendið. Ég lít á bænd­ur og aðra nátt­úru­unn­end­ur, úti­vistar­fólk, veiðimenn, alla þá sem hafa yndi af ferðum um og dvöl á há­lend­inu hvort sem þeir not­ast við fæt­urna á sjálf­um sér, fæt­urna á hest­um, jeppa eða mótor­hjól, göngu­skíði eða vélsleða á vetr­um sem sam­herja í þessu máli. Í því að vernda há­lendi Íslands og skila því sem óspillt­ustu til kom­andi kyn­slóða. Ég skal vera al­veg hrein­skil­inn; ég bara get ekki hugsað mér fleiri her­virki a la Kára­hnjúka­virkj­un á há­lendi Íslands (og hvar varst þú þá Guðni minn?). Ég finn til í öllu brjóst­inu ef ég hugsa um risa­vaxna há­spennu­línu í lofti yfir Sprengisand (milli Hofs­jök­uls/​Arn­ar­fells hins mikla og Tungna­fells­jök­uls, rétt vest­an við Tóm­as­ar­haga, öðrum hvor­um meg­in við Fjórðungs­öldu og kannski niður í Kiðagil). Erum við búin að gleyma hversu stutt er síðan það átti að sökkva Þjórsár­ver­um?

Nei, þetta snýst ekki um að taka neitt af nein­um, hrekja einn eða neinn í burtu. Þetta snýst um að leyfa okk­ur og kom­andi kyn­slóðum að eiga há­lendið áfram sam­an. Þeim sem landið byggja og gest­um þeirra að njóta þess án þess að það spill­ist, og varðveita og nýta á sjálf­bær­an hátt mestu auðlind Íslands, með fullri virðingu fyr­ir fiski­miðunum, landið okk­ar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search