Search
Close this search box.

Gripið til aðgerða í loftslagsmálum

Deildu 

Lofts­lagsváin er stóra málið á okkar tímum. Þegar mér var trúað fyrir því að verða umhverfis- og auðlindaráðherra setti ég loftslagsmálin í algjöran forgang, enda hafði ég í fyrra starfi mínu hjá Landvernd lengi kallað eftir aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.

Þegar ég kom inn í ráðuneytið var ekki til aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­málum hér á landi. Það breyttist og nokkrum mánuðum síðar leit fyrsta fjár­magn­aða lofts­lags­á­ætlun Íslands dags­ins ljós, kynnt af sjö ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Meg­in­þáttum loftslagsáætlunarinnar hefur nú verið hrint í fram­kvæmd, bæði hvað varðar orku­skipti í sam­göngum og aðgerðir vegna kolefn­is­bind­ingar og end­ur­heimtar vot­lend­is:

 • Hrað­hleðslu­stöðvum sem settar eru upp með fjár­fest­ing­ar­styrk frá rík­inu fjölgar á næstunni um 40%. Nýju stöðv­arnar verða þrisvar sinnum afl­meiri en þær öfl­ug­ustu sem fyrir eru. Þetta var tilkynnt fyrir skemmstu.
 • Verið er að koma upp neti hleðslu­stöðva við gisti­staði vítt og breitt um land­ið.
 • Frumvarp liggur fyrir Alþingi um afslætti (nið­ur­fell­ingu á virðisaukaskatti) af raf­hjól­um, reið­hjól­um, vist­vænni stræt­is­vögnum, hleðslu­stöðvum fyrir heima­hús og fleira. Þetta bæt­ist við marg­vís­legar íviln­anir til kaupa á vist­vænni bif­reiðum.
 • Stjórn­völd hafa lagt stór­aukna áherslu á breyttar ferða­venjur og má þar nefna viðamikla áætlun um upp­bygg­ingu almenn­ings­sam­gangna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu með sveit­ar­fé­lögum á svæð­inu.
 • Þegar er unnið eftir afar umfangsmikilli áætlun um kolefnisbindingu sem hefur áhrif langt inn í framtíðina. Umfang land­græðslu og skóg­ræktar verður tvöfaldað og end­ur­heimt vot­lend­is tífölduð á næstu fjórum árum. Áætlað er að það muni skila um 50% meiri árlegum lofts­lags­á­vinn­ingi árið 2030 en núver­andi bind­ing og 110% meiri ávinn­ingi árið 2050.

Nýsköpun og grænir skattar

Gripið hefur verið til fjölmargra annarra aðgerða. Hér eru nokkur dæmi:

 • Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Loftslagssjóð en í gegnum hann verður hálfum millj­arði króna varið á fimm árum til nýsköpunar, s.s. vegna nýrra loftslagsvænni tæknilausna, og til fræðslu um loftslagsmál.
 • Kolefn­is­gjald hefur verið hækkað í áföng­um og nýir grænir skattar verið kynntir til sög­unnar til að draga úr losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda.
 • Gripið hefur verið til aðgerða til að draga úr mat­ar­só­un.
 • Gert hefur verið að skyldu að gera ráð fyrir hleðslu raf­bíla við allt nýbyggt hús­næði á land­inu.
 • Loftslagsráð hefur verið stofnað og lögfest.
 • Stór­aukið hefur verið við vöktun á súrnun sjáv­ar, jöklum, skriðu­föllum og fleiri þáttum hér á landi.
 • Fest hefur verið í lög að unnar skuli vís­inda­skýrslur um áhrif lofts­lags­breyt­inga á nátt­úru­far og sam­fé­lag á Íslandi og að þær skuli m.a. taka mið af skýrslum IPCC.
 • Stofnaður hefur verið samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Þar verður m.a. unnið að aðgerðum í samræmi við markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.
 • Stjórn­völd hafa fengið öll stór­iðju­fyr­ir­tæki á Íslandi og Orku­veitu Reykja­víkur til að þróa og rann­saka hvort og hvernig megi draga úr losun frá verk­smiðjum stór­iðju­fyr­ir­tækja með nið­ur­dæl­ingu CO2 í berg­lög. 
 • Lögð hefur verið sú skylda á Stjórn­ar­ráð Íslands, stofn­anir rík­is­ins, fyr­ir­tæki í meiri­hluta­eigu rík­is­ins og sveit­ar­fé­lög að setja sér lofts­lags­stefnu og mark­mið um sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda.
 • Þann 1. janúar taka gildi stórlega hertar kröfur varðandi eldsneyti í íslenskri landhelgi – sem banna í raun notkun svartolíu hér við land. Ég undirritaði reglugerðina nú fyrir helgi.

Upptalningin hér að ofan er langt í frá tæmandi. End­ur­skoðun aðgerða­á­ætl­unarinnar er í fullum gangi og vítt og breitt um stjórnkerfið er unnið hörðum höndum að loftslagsmálunum.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í Madrid. Skilaboð Íslands til ríkja heims og stórfyrirtækja eru að orðum verði að fylgja aðgerðir. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Saman getum við gert kraftaverk

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search