Á jaðri sýningarsvæðis Árbæjarsafns stendur gripur sem óhætt er að telja einn þann veigamesta í gjörvallri tæknisögu Íslands. Þótt saga hans sé merkileg lætur hann ekki mikið yfir sér og hætt er við að mennirnir sem réðust í það fyrirtæki að kaupa hann og flytja til landsins fyrir réttri öld hafi fremur tengt hann við fjártjón og brostnar vonir en framfarir og tækninýjungar. Hér er að sjálfsögðu rætt um sjálfan gullborinn sem kom til Íslands á vordögum 1922.
Kaupin á bornum áttu sér þó mun lengri aðdraganda. Árið 1904 lét bæjarstjórn Reykjavíkur hefja boranir eftir neysluvatni í Vatnsmýrinni. Ör fjölgun bæjarbúa um aldamótin og auknar hreinlætiskröfur gerðu það að verkum að gömlu vatnsbólin innan bæjarmarkanna voru orðin ófullnægjandi. Vonir um miklar vatnslindir í næsta nágrenni bæjarins brugðust og fljótlega var ákveðið að sækja vatn alla leið í Gvendarbrunna, en áður en til þess kom áttu boranirnar í mýrinni eftir að hafa óvæntar afleiðingar.
Klondike austursins
Vorið 1905 veitti danski bormeistarinn sem hafði umsjón með verkinu því athygli að gyllt málmsvarf kom upp úr borholunni. Fregnir þessar vöktu þegar mikla athygli. Reykvíkingum voru í fersku minni sögur af gullæðinu í Klondike í Alaska nokkrum árum fyrr. Hvers vegna æti sú saga ekki endurtekið sig í Reykjavík? Fáeinir Vestur-Íslendingar höfðu tekið þátt í því ævintýri og einn þeirra var meira að segja staddur í bænum. Honum voru sýndar málmagnirnar og felldi þann dóm að líklega væri hér gull að finna.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-midjufleki-1/banner132520.htmlEins og hendi væri veifað braust út lítið gullæði í Reykjavík. Sagt er að lóðir sem verið höfðu óseljanlegar í mörg ár hafi skipt um eigendur fyrir margfalt upprunalegt verð og kaupmenn bæjarins tóku að búa sig undir að þjónusta gullleitara í stórum stíl. Stofnað var félag um gullleitina með aðild bæjarsjóðs og hafist handa við tilraunaboranir. Niðurstöður þeirra urðu þó ekki sérlega afgerandi. Stóru gullæðarnar létu bíða eftir sér og mesta gróðavonin tók fljótlega að sljákka. Vangaveltur fóru að heyrast um að hrekkjalómar hefðu komið orðróminum af stað og vildu sumir skella skuldinni á vesalings Vestur-Íslendinginn, sem sagður var hafa komið gylltu ögnunum fyrir. Í dag er þó talið líklegast að málmleifarnar hafi komið úr látúnshylkjum sem notuð voru við sprengingar í tengslum við boranirnar.
Von sem lifði
Þótt minni og minni vísbendingar væru um gullnámur í bæjarlandinu, reyndist erfitt að kveða niður draumana um auðæfi og eðalmálma. Efnahagskreppa sem skall á Evrópu árið 1908 varð til þess að gullleitin var lögð á hilluna. Nokkrum misserum síðar brast á heimsstyrjöld og í kjölfar hennar komu miklar efnahagslegar þrengingar á Íslandi. Við þær aðstæður var fráleitt að sinna gæluverkefnum á borð við langsóttar gullboranir, en í hugum margra lifði áfram hinni nagandi efi: „hvað ef Reykvíkingar sætu ofaná gullnámu?“
Árið 1919 eignuðust Íslendingar sinn fyrsta námuverkfræðing. Helgi Hermann Eiríksson, sem síðar varð kunnur sem skólastjóri Iðnskólans og bankastjóri í Reykjavík, hafði haldið til náms í Kaupmannahöfn og Glasgow þar sem hann sérhæði sig í vinnslu verðmætra jarðefna. Hugsjón hans var að Ísland yrði ekki eftirbátur annarra landa þegar kæmi að námagrefti. Í því skyni kom hann að rannsóknum á silfurbergi við Reyðarfjörð og á kolalögum víða um land.
Gróðanum ráðstafað
Ekki er að efa að koma Helga til landsins hafi átti sinn þátt í því að hópur athafnamanna stofnaði hlutafélagið Málmleit um mitt ár 1921. Félagið gerði flókna samninga við bæjarstjórn Reykjavíkur um leyfi til rannsókna víðs vegar í Vatnsmýrinni og voru ýmis ákvæði sett um forkaupsrétt bæjarins að drjúgum hluta í félaginu ef til gullvinnslu kæmi, sem og um greiðslur í bæjarsjóð ef stórhagnaður yrði af verkefninu. Að samningum loknum varð fyrsta verk félagsins að panta öflugan þýskan bor til landsins: gullborinn.
Það tók ekki langan tíma fyrir hið nýstofnaða gullleitarfyrirtæki að leita af sér allan grun í Vatnsmýrinni. Hlutaféð varð fljótt á þrotum og starfseminni því sjálfhætt. Borinn fíni lá verkefnalaus úti í vegarkanti, þar sem hann tók að grotna niður sem óþægilegur minnisvarði um misheppnað ævintýri.
Og þó! Á upphafsárum tuttugustu aldar fóru Íslendingar í vaxandi mæli að velta fyrir sér nýtingarmöguleikum jarðhita. Á nokkrum stöðum á landinu mátti finna sundlaugar sem nýttu heitt vatn og stöku hugvitsmaður hafði freistað þess að kynda hús sín með heitu vatni eða jarðgufu. Erlend verkfræðirit fluttu fregnir af bæjum og borgum vestan hafs og austan þar sem heitar uppsprettur voru nýttar ýmist til raforkuframleiðslu eða húshitunar. Forvitni landsmanna var vakin.
Nýtt hlutverk
Árið 1928, fjórum árum eftir að gullæðið í Vatnsmýrinni fór endanlega út um þúfur, hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur boranir í Þvottalaugunum. Í fyrstu var ætlunin að finna gufu sem nýta mætti til að knýja túrbínur en fljótlega þótti einsýnt að skynsamlegra væri að dæla upp heitu vatni sem nýta mætti beint til kyndingar í Reykjavík og fyrir fyrirhugaða Sundhöll í bænum. Laugaveitan svokallaða var tekin í notkun árið 1930 og þótt hún væri smá í sniðum leiddi hún þegar í ljós kosti þess að hita Reykjavík alla upp með þessum hætti.
Það var vitaskuld gamli gullborinn sem nýttur var við boranirnar í Þvottalaugunum. Hann fékkst ódýrt frá eigendum Málmleitar hf. Afar ólíklegt má telja að stjórnendur Rafmagnsveitunnar hefðu ráðist í að kaupa nýjan og fokdýran bor til landsins um þetta leyti, enda hafði fyrirtækið í næg önnur horn að líta. Því má færa rök fyrir því að misheppnuð gullleit í Vatnsmýri hafi flýtt fyrir hitaveituvæðingu Reykjavíkur og þar með landsins alls, jafnvel um áratugi!
Gullborinn sjálfur átti svo eftir að þjóna Reykvíkingum um langt skeið. Hann kom við sögu heitavatnsborana að Reykjum í Mosfellssveit á fimmta áratugnum og síðar í Laugarnesi á þeim sjötta. Síðast var borinn notaður í Gufunesi á árinu 1965. Að því verki loknu var hann látinn standa þar og veðrast um margra ára skeið meðan þess var beðið að Árbæjarsafn hefði efni á að flytja hann til bæjarins. Frá árinu 1978 hefur Gullborinn verið sýnilegur safngestum þar, en þess er þó skammt að bíða að hann flytji enn búferlum því ákveðið hefur verið að koma bornum fyrir á nýju sýningarsvæði Orku náttúrunnar í Elliðaárdal. Í tengslum við þá flutninga munu þessar merku tækniminjar fá löngu tímabæra andlitslyftingu og vonandi þann sess sem þær eiga skilið.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur og frambjóðandi Vinstri grænna í komandi borgarstjórnarkosningum.