Verðbólga á Íslandi hefur ekki mælst jafnhá síðan árið 2010 og Seðlabankinn hefur brugðist við með vaxtahækkunum. Allur almenningur finnur vel fyrir áhrifum þessa í heimilisbókhaldinu en kjarasamningar á vinnumarkaði hafa tryggt að kaupmáttur flestra hefur viðhaldist. Þetta á þó ekki við um alla og þess vegna er sérstaklega mikilvægt að draga úr áhrifum verðbólgunnar á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins og koma þannig til móts við þau heimili í landinu sem hækkandi verðlag kemur verst við. Í lok apríl átti ég fund með Öryrkjabandalagi Íslands um áherslur bandalagsins í kjaramálum vegna hækkandi verðbólgu og dýrtíðar. Í framhaldinu vann ráðuneyti mitt tillögur sem ásamt tillögum annarra ráðuneyta mynda þann aðgerðapakka sem ríkisstjórn hefur nú samþykkt og kynnt.
Í fyrsta lagi fela aðgerðirnar í sér 3% hækkun bóta almannatrygginga til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega. Samhliða þeirri hækkun eru frítekjumörk húsnæðisbóta og framfærsluviðmið í örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu hækkuð um sömu 3% svo hvorki komi til skerðinga (lækkunar) á húsnæðisbótum né framfærsluuppbót hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum. Þannig hækkar lífeyrir tekjulægstu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþeganna sem búa ekki með öðrum um rúmar 10.500 krónur á mánuði. Það er sambærileg hækkun við launataxta á vinnumarkaði sem varð 1. maí sl. vegna hagvaxtaraukans.
Í öðru lagi eru grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækkaðar um 10% til að mæta hækkun á húsaleigu, en tæplega helmingur heimila á leigumarkaði nýtur húsnæðisbóta, eða um 16 þúsund heimili. Kannanir hafa sýnt að fólk sem er á leigumarkaði er mun líklegra til að búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað en þau sem búa í eigin húsnæði. Þessi aðgerð mætir því stórum hópi láglaunafólks, örorkulífeyrisþega og innflytjenda sem eru fjölmennir á leigumarkaði.
Í þriðja lagi verður greiddur sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Fjárhæðin er 20 þúsund krónur með hverju barni sem greidd verður út í lok júní.
Heildarfjárhæð allra þessara aðgerða á árinu 2022 er um 5 milljarðar króna, en hærri á ársgrundvelli. Ljóst er að stjórnvöld þurfa að sýna aðhald í ríkisfjármálum til að styðja við peningastefnu Seðlabankans en á sama tíma þurfum við að tryggja að dýrtíðin bitni ekki verst á afkomu þeirra sem minnst hafa og verði til að auka ójöfnuð.
Þessi aðgerðapakki skiptir máli fyrir afkomu viðkvæmustu hópa samfélagsins.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson
félags- og vinnumarkaðsráðherra