PO
EN

Hætta til hægri

Deildu 

VG hafna einkavæðingu sem lausn við tímabundnum hallarekstri ríkisins. Hægriflokkarnir hver á fætur öðrum boða einkavæðingu og sölu ríkiseigna á áður óþekktum hraða. Síðast Viðreisn, en formaður flokksins greindi frá stefnu flokksins um að Landsbankinn verði seldur á næstu árum. Landsbankinn hefur lengst af frá stofnun hans 1886 verið í almannaeigu, ef frá eru skilin nokkur ár í aðdraganda bankahrunsins. Þau ár urðu almenningi á Íslandi afar dýr og sporin hræða í þeim efnum. Kreddukenningar um að einkafjárfestar séu betri í rekstri banka eru auðvitað ekkert annað en það, kreddur sem byggja á litlum ef einhverjum sönnunargögnum úr íslenskum veruleika. Þá vakna líka spurningar um hvaða aðrar eignir ríkisins hægriflokkarnir horfi til að einkavæða, er það flugvöllurinn í Keflavík næst, eða gullgæsin sjálf, Landsvirkjun?

Einkavæðingar platan spiluð á ný
VG telur að ríkið þurfi að stýra að einum kerfislega mikilvægum banka. Það sé ákveðin öryggisventill til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Þá er alveg ljóst að hreyfingin mun aldrei samþykkja einkavæðingu mikilvægra innviða, líkt og Keflavíkurflugvallar eða Landsvirkjunar. Bæði þessi félög eru einfaldlega of mikilvæg fyrir hagsmuni landsins. Eyja í Atlantshafi verður að geta stjórnað stærstu gáttinni til umheimsins og það verður best gert með því að ríkið eigi flugvöllinn. Landsvirkjun er verðmætasta eign landsmanna og hefur skilað tugmilljarða hagnaði ár eftir ár. Þessi hagnaður mun bara aukast á komandi árum. Frekar ætti að vinna að því að nýta hagnaðinn af þessu fyrirtæki sem af fyrirhyggju hefur verið byggt upp um áratugi í þágu almennings.

Markaðsvæðing brýtur niður samfélög
Ekki nóg með að hægriflokkarnir hafi í hyggju að selja eignir ríkisins heldur eru svör þeirra um hvað stendur til í öðrum mikilvægum kerfum ógnvænleg. Fulltrúi Viðreisnar sagði á dögunum að flokkurinn horfði til Svíþjóðar í heilbrigðismálum. Það sem gerðist í þar í landi var að hægriflokkar hleyptu markaðsvæðingunni lausri í heilbrigðiskerfinu og síðar í menntakerfinu. Hvortveggja voru dýrkeypt mistök. Það sem gerðist var að þjónustan batnaði við þau sem áttu mikla peninga og þurftu litla heilbrigðisþjónustu.

Einkareknar heilsugæslustöðvar risu í hverfum þar sem ríkt fólk bjó. En fyrir þau sem bjuggu í hverfum með lægri tekjur og höfðu flóknari þarfir fyrir þjónustu batnaði ekkert. Í tilfelli menntakerfisins var niðurstaðan ennþá alvarlegri. Börn af efnameiri heimilum, með litlar þarfir fyrir stuðning ganga í einkaskóla en í almenna skólakerfinu eru börnin sem þurfa mikinn stuðning en fá lítinn.

Þetta er það sem markaðsvæðing þýðir í reynd. Henni höfnum við í VG og munum berjast gegn henni fáum við til þess stuðning í kosningum 30. nóvember,

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search