PO
EN

Hagkerfi snýst um fólk

Deildu 

Nýlega fór ég í ferð umhverfis landið og hitti margt fólk sem vinnur í matvælaframleiðslu af ýmsu tagi. Við fiskveiðar, í landbúnaði og fiskeldi. Þessar heimsóknir voru góðar og gagnlegar. Það gleymist stundum þegar rætt er um landbúnaðinn og kannski sérstaklega sjávarútveginn að þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um fólk. Í allri umræðu um kerfi, skipulag og stjórnsýslu snýst verkefnið um að skapa öruggt og uppbyggilegt umhverfi fyrir fólkið sem starfar í þessum grunnatvinnuvegum og þannig þjóðina alla.

Allt er breytingum háð

Atvinnugreinar breytast í tímans rás. Öldum saman var nautgriparækt stærsta búgreinin á Íslandi. Í dag eru mun fleiri sem stunda sauðfjárrækt, þó að þróunin sé reyndar sú hin síðari ár að sauðfé fækki en nautgripum fjölgi. Síldin var um tíma okkar verðmætasti nytjastofn, en síldin hvarf. Nú um langa hríð hefur þorskurinn  verið okkur mikilvægastur. Svo gæti farið að eldislax taki fram úr þorskinum á næstu tíu árum ef að uppbygging fiskeldis, á landi og í sjó, stenstt áætlanir. Þessum umbreytingum fylgja áskoranir. Rísandi greinum fylgja vaxtarverki eins og við höfum séð gerast við uppbyggingu fiskeldis. Stjórnvöld reyna iðulega að koma til móts við umbreytingar í atvinnuháttum og þannig hefur byggst upp flókið net bútasaumslausna bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. En þessi bútasaumur verður feyskinn með tímanum og vinnur jafnvel á köflum gegn þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér; að skapa gott umhverfi fyrir fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af nýtingu auðlinda lands og sjávar.

Umbætur í þágu fólksins

Þetta er eitt þeirra stóru markmiða sem ég hef sett mér í embætti matvælaráðherra. Að rýna í það með skipulögðum hætti hvernig við getum gert nauðsynlegar umbætur á stjórnkerfi fiskveiða og búvörusamninga þannig að markmið stjórnvalda og stefnumörkun nái fram að ganga. Áskoranirnar eru ólíkar. Óásættanleg afkoma hefur verið um hríð hjá hluta bænda. Það ríkir almenn sátt um að landbúnaður hljóti opinberan stuðning, ágreiningurinn snýst fyrst og fremst um útfærslur. Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu. Samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt.

Ég vil ekki umbylta þeim kerfum sem við höfum búið okkur til enda er þar margt gott en ég tel gríðarlega mikilvægt að rýna þessi kerfi og ráðast í nauðsynlegar breytingar sem ég hef trú á að komi okkur upp úr hjólförum sem við virðumst föst í. Með því bætum við um leið líf fólksins í landinu, með beinum og óbeinum hætti og það er alltaf lokatakmarkið.

Höfundur er Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search