Search
Close this search box.

Hálendisþjóðgarður í stjórnarsáttmála

Deildu 

Hálendisþjóðgarður er eitt af þeim málum sem stjórnarflokkarnir ákváðu að koma á á þessu kjörtímabili og settu í stjórnarsáttmála. Málið var í umfjöllun sérstakrar nefndar frá apríl 2018 til desember 2019. Nefndin, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði og í sátu m.a. fulltrúar allra stjórnmálaflokka, hélt 23 fundi og má lesa allar fundargerðir hennar á netinu. Nefndin hélt ótal opna kynningar- og samráðsfundi í öllum landshlutum, átti samtöl við fólk um allt land um málið og skilaði prýðisgóðri skýrslu, sem kynna má sér á netinu.

Hugmyndin um þjóðgarð á miðhálendinu er alls ekki ný af nálinni og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, skipaði nefnd til að vinna að hugmyndinni árið 2016. Á þeirri vinnu er m.a. byggt nú.

Eðlilegt er að ólíkar skoðanir og áherslur séu uppi um jafn víðfeðmt mál. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hefur haldið vel utan um málið og kappkostað að hlusta á athugasemdir. Þannig eru t.d. sveitarfélögin með meirihluta í stjórn umdæmisráða þjóðgarðsins sem mun setja honum stjórnunar- og verndaráætlun og þau munu áfram gefa út skipulags- og byggingarleyfi á svæðinu. Af 11 stjórnarmönnum þjóðgarðsins verða sex kjörnir sveitarstjórnarmenn.

Umsagnarferli í samráðsgátt stjórnarráðsins lýkur í dag. Nú tekur við að vinna úr þeim umsögnum, heyra betur í þeim sem hafa athugasemdir og vinna málið inn í ríkisstjórn og afgreiða til þingsins. Þar tekur umhverfis- og samgöngunefnd við því og það fer í hefðbundið umsagnarferli þar. Það er ekkert því til fyrirstöðu að málið verði samþykkt á yfirstandandi þingi, því fyrr sem það er gert því fyrr komast sveitarfélögin og aðrir fulltrúar í það að vinna að stjórnunar- og verndaráætlunum fyrir þjóðgarðinn.

Málinu hefur ekki verið hraðað neitt óeðlilega, heldur hafa allir gætt að því að vanda til verka. Það verður gert áfram.

Meðfylgjandi er tengill á spurt og svarað um hálendisþjóðgarð.

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search