Search
Close this search box.

Hálfleikur

Deildu 

Nú standa yfir blóðugustu leikar íþróttasögunnar. Mannvirkin, þar sem 46 fótboltaleikir í Katar fara fram, hafa kostað 6.500 verkamenn lífið. Sumir telja þó fjöldann frekar nálgast 7.000. Það er hærri fórnarkostnaður en mannkynssagan hefur áður orðið vitni að vegna íþróttakeppni.

Þegar þið, kæru landsmenn, horfið á þessa leiki hugsið þá til þeirra barna sem orðið hafa föðurlaus, til eiginkvenna sem standa einar uppi í sumum af fátækari löndum heims, Bangladesh, Indlandi, Pakistan, Nepal og Sri Lanka, til foreldra sem misst hafa syni sína. Farandverkamenn, eiginmenn eða synir lögðu í langferðir, borguðu aðgangseyri að vinnu dýru verði, unnu langa vinnudaga á sultarlaunum við hörmulegar aðstæður fjarri fjölskyldum og vinum. Sjö þúsund þeirra komu ekki aftur. Það liggur nærri að hver einasti leikur, en þeir eru 46 á þessu móti, hafi kostað 150 mannslíf, í 90 mínútna leik 8 manns á hverjum 5 mínútum.

Þessi fórnarkostnaður er ekki vegna óviðráðanlegra aðstæðna heldur vegna óásættanlegra aðstæðna á vinnustöðum, skorts á öryggi og fullkominnar lítilsvirðingar fyrir lífi og heilsu farandverkamanna. Í Katar eru réttindi hinseginfólks fótum troðin, það er einfaldlega lögbrot að vera hinsegin. Kvenfrelsi er þar nánast spaugsyrði. Forysta KSÍ heimsækir þetta samfélag og heiðrar þessa leika með nærveru sinni þó svo að Ísland taki ekki þátt í leikunum.

Og nú er hálfleikshlé í verklegum framkvæmdum vegna HM, þessum sannkallaða hildarleik. Þetta hálfleikshlé stendur svo lengi sem fótboltakeppnin stendur yfir. Þegar keppninni er lokið, HM í Katar, hefst seinni hálfleikur verklegra framkvæmda. Það þarf nefnilega að rífa flesta leikvangana að keppni lokinni.

Vinna við að rífa niður mannvirki er að minnsta kosti jafn hættuleg og áhættusöm og bygging þeirra. Ef ekki verður breyting á aðstöðu og vinnuumhverfi þeirra sem vinna við að rífa þessi mannvirki má búast við annarri hrinu dauðsfalla. Í þessum seinni hálfleik reynir á samvisku þjóðanna. Alþjóðasamfélagið má ekki horfa í aðra átt þegar að því kemur.

Steinar Harðarson,

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search