Search
Close this search box.

Halla Gunnarsdóttir: Amma sækir í dag

Deildu 

Virðulegur forseti. „Amma sækir í dag“, endurómaði í leikskólar dóttur minnar í morgun en um hádegisbilið voru 3.500 leikskólabörn send heim í Reykjavík. Sums staðar er enginn matur á borðum og sums staðar verða gólf ekki skúruð. Kjaradeilan sem slík er ekki umræðuefni mitt hér í þingsal heldur það samfélagslega verkefni sem hún stendur í samhengi við. Eftir hrun var það mikið keppikefli að tryggja að Ísland færi ekki sömu leið og fjölmörg önnur lönd á krepputímum en tilhneigingin er að tryggja störf fyrir karla með fjárfestingum í efnislegum innviðum en á sama tíma er skorið niður við félagslega innviði sem leiðir til langtímaatvinnuleysis kvenna og um leið til aukins ólaunaðs vinnuálags. Þetta tókst að koma í veg fyrir á Íslandi sem er vel, en það virðist þó ekki hafa nægt til.

Í nýlegri úttekt Kolbeins H. Stefánssonar félagsfræðings kemur í ljós að fjölgun örorkulífeyrisþega má að miklu leyti rekja til kvenna sem eru 50 ára og eldri. Enn fremur virðist fólk í lægri tekjuþrepunum, einkum konur, glíma við fleiri heilsufarskvilla en fólk í efri tekjuþrepunum. Þótt konur verði almennt eldri en karlar á Íslandi þá leiða þessar niðurstöður í ljós að þær eiga færri ár við góða heilsu, lifa lengur en eiga færri ár við góða heilsu. Fróðlegt væri að sjá hvaða konur eru í mestum áhættuhópi en ekki er ólíklegt að konur í umönnunar- og kennslustörfum lendi þar ofarlega á blaði. Ef við rýnum samhliða í tölur um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi má kannski halda því fram að við förum ekkert sérstaklega vel með konur á Íslandi. Sem samfélag þurfum að horfast í augu við það að við reiðum okkur á ólaunaða og illa launaða vinnu kvenna og nú eru langtímaáhrif þess að koma fram. Verkefni stjórnmálanna er að skapa sátt um að leiðrétta þessa skekkju. Það getum við gert ef við gerum það saman. Ég óska samningsaðilum alls hins besta í þeirri lotu sem nú stendur yfir og umfram allt óska ég þess að við berum gæfu til að halda rétt á spöðunum til framtíðar.

Halla Gunnarsdóttir, varaþingmaður í Reykjavík.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search