Alþjóðadagur fatlaðs fólks er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 3. desember. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið óskar landsmönnum til hamingju með þennan mikilvæga dag sem er ætlað að stuðla að þekkingu og auka skilning á málefnum fatlaðs fólks.
Alþjóðadagur fatlaðs fólks var fyrst haldinn fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna árið 1992 í kjölfar alþjóðaárs fatlaðra 1981 og áratugs fatlaðs fólks sem lauk árið 1991. Í forgrunni í ár er hlutverk nýsköpunar við að ýta undir aðgengilegan og sanngjarnan heim.
Innan stjórnkerfisins hér á landi á mikil vinna sér nú stað til að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Formleg vinna fór nýlega af stað við gerð sérstakrar landsáætlunar og markar hún upphaf nýrrar vegferðar í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi. Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Samhliða hefur verið unnið að því að ryðja úr vegi stafrænum hindrunum hjá fötluðu fólki hér á landi. Þróaður hefur verið stafrænn talsmannagrunnur og persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geta nú komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna á Mínum síðum á Ísland.is og fengið aðgang að stafrænu pósthólfi þeirra þangað sem erindi berast meðal annars frá opinberum aðilum. Skýrt ákall hefur verið um breytingarnar og unnið er að því að tengja talsmannagrunninn við aðrar stofnanir.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
„Fatlað fólk á að geta notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við aðra. Á þetta hef ég lagt þunga áherslu og mun áfram gera. Til hamingju öll með alþjóðlegan dag fatlaðs fólks.“