Search
Close this search box.

Heilbrigðistefna til framtíðar

Deildu 

Heilbrigðisstefna til ársins 2030  var samþykkt með 45 atkvæðum og án mótatkvæða á Alþingi í vikunni. Heilbrigðisstefnan er þannig sameign okkar allra. Hún skapar heilbrigðisþjónustunni í landinu mikilvægan ramma sem er til þess fallinn að sameina krafta þeirra fjölmörgu aðila sem þurfa að vinna saman til að mæta sem best þörfum þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Það er lögbundið hlutverk heilbrigðisráðherra að marka stefnu í heilbrigðismálum. Frá því að heilbrigðisáætlun rann sitt skeið árið 2010 hafa verið gerðar nokkrar atrennur að  mótun slíkrar stefnu en það hefur ekki tekist fyrr en nú. Samþykkt heilbrigðisstefnu á Alþingi eru því mikilvæg tímamót og kærkomin.

Heilbrigðiskerfið er flókið og margþætt, sérhæfing mikil og þjónustuveitendur margir. Verkefni heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við stofnanir heilbrigðiskerfisins, er að skapa heildrænt kerfi sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Um það fjallar heilbrigðisstefnan. Hún fjallar um

skipulag, verkaskiptingu og ábyrgð innan heilbrigðiskerfisins í þágu bættrar þjónustu við sjúklinga. Um innleiðingu og notkun mælikvarða á gæði og árangur heilbrigðisþjónustu sem endurspegla hvernig þjónustu er ætlað að mæta þörfum sjúklinga og samfélagsins í heild. Um mikilvæga hvata í fjármögnunar- og greiðslukerfum sem eiga að tryggja sjúklingum að heilbrigðisvandamál þeirra séu meðhöndluð með heildarsýn að leiðarljósi. Um innleiðingu nýrra meðferða, lyfja og tækja og þær kröfur sem gera verður til gagnreyndrar þekkingar. Um leiðsögn og upplýsingagjöf til sjúklinga og almennings og leiðir til að auðvelda almenningi að vera virkir þátttakendur í eigin meðferð og taka upplýstar ákvarðanir í málum sem varða þeirra eigin heilsu. Loks er fjallað um mönnun heilbrigðiskerfisins, forystu og stjórnun, starfsumhverfi, vísindi og menntun og ótal margt fleira.

Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd hef ég nú þegar lagt fram aðgerðaáætlun til fimm ára en í stefnunni er kveðið á um að slíkt sé gert árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi. Þá munu heilbrigðisstofnanir byggja sínar starfsáætlanir á stefnunni og stuðla þannig að samhæfðri innleiðingu Heilbrigðisstefnu í öllu heilbrigðiskerfinu.

Það er sannfæring mín að sú heilbrigðisstefna sem nú hefur verið samþykkt verði leiðarvísir við uppbyggingu á heildstæðu, öflugu  og enn betra heilbrigðiskerfi til framtíðar fyrir okkur öll.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search